Verð sjávarafurða lækkar enn
29. september, 2020
Verð á sjávarafurðum lækkaði um 0,5% í erlendri mynt í ágúst frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku. Miðað við ágúst í fyrra hefur verðvísitala sjávarafurða lækkað um 5,2% í erlendri mynt og á þann kvarða hefur lækkunin ekki verið meiri síðan um um mitt árið 2013. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, hefur verulegur viðsnúningur orðið á verði sjávarafurða á skömmum tíma en í desember var tólf mánaða taktur verðvísitölunnar 9,3%. Vart þarf að nefna að þennan viðsnúning má rekja til áhrifa COVD-19 á markaði með sjávarafurðir, sem hefur umturnast frá því COVID-19 skall á.
Talsverðar sveiflur
Framvindan er nokkuð misjöfn eftir afurðaflokkum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir tólf mánaða breytingu á verði botnfiskafurða í erlendri mynt. Þar má sjá að verð á öllum botnfiskafurðum var lægra nú í ágúst en í ágúst í fyrra, að ferskum afurðum undanskildum þar sem einhver viðsnúningur virðist hafa átt sér stað á síðustu mánuðum. Þannig var verð á ferskum afurðum rúmlega 1% hærra í ágúst en í sama mánuði í fyrra, en tólf mánaða takturinn hafði mælst neikvæður í maí og júní. Þó er ljóst að ómögulegt er að spá fyrir um framhaldið, sem mun, eins og flest annað, ráðast af því hvernig til tekst að ráða niðurlögum faraldursins víða um lönd.
Leitnin hin sama
Þess má geta að í þessari umfjöllun er stuðst við verðvísitölu sjávarafurða (VS) en ekki verðvísitölu útfluttra sjávarafurða (VÚS) sem Hagstofan heldur einnig utan um. Við fjöllum oftar um þá síðarnefndu, en báðar mæla verðþróun á íslenskum sjávarafurðum, en með ólíkri aðferðafræði og mismunandi gögnum og gefa því mismunandi niðurstöðu. VÚS tekur til alls útflutnings og byggist á gögnum frá útflutningsskýrslum en VS byggist á úrtaki, það er upplýsingum frá hluta sjávarútvegsfyrirtækja. Oftast nær hafa þær þó fylgst ágætlega að, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar sést að verulegur viðsnúningur er á afurðaverði á milli fyrsta og annars ársfjórðungs, sem endurspeglar áhrif COVID-19 á afurðaverð. Nánari umfjöllun um verð sjávarafurða og verðvísitölurnar má sjá á Radarnum.