Veiðigjald: Hátt í 70% aukning

25. ágúst, 2023

Alls greiddu sjávarútvegsfyrirtæki um 488 milljónir króna í veiðigjald vegna veiða í júní samkvæmt tölum sem Fiskistofa birti nýlega. Þar með er fjárhæð veiðigjaldsins komin í 5.641 milljón króna á fyrri árshelmingi. Það er 67% meira en fyrirtækin höfðu greitt fyrir veiðar á sama tímabili í fyrra, en þá var heildarfjárhæð veiðigjaldsins komin í 3.377 milljónir króna. Fjárhæðin nú í ár er nánast sú sama og hún var á fyrri helmingi ársins 2018, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.


Mestu munar um þorsk, svo loðnu

Á fyrstu 6 mánuðum ársins hafa þorskveiðar skilað hæstri fjárhæð í veiðigjald, eða sem nemur um 2.135 milljónum króna. Það er aðeins lægri fjárhæð en veiðar á þorski skiluðu á sama tímabili í fyrra (2.263 milljónum króna). Það má alfarið rekja til þess að þorskaflinn var um 13% minni á fyrri árshelmingi í ár en á sama tímabili í fyrra, vegna samdráttar í aflaheimildum. Á móti kemur að upphæð veiðigjalds á hvert kíló á þorski sem útgerðir þurfa að greiða er hærri í ár en í fyrra, eða 19,17 krónur á móti 17,74 krónum.

Loðnuveiðar hafa skilað næsthæstri fjárhæð á árinu, eða 1.805 milljónum króna. Í fyrra var ekkert veiðigjald af loðnu vegna loðnubrests á árinu 2020 en reiknistofn veiðigjaldsins árið 2022 byggir á því. Veiðar á ýsu hafa svo skilað þriðju hæstu fjárhæðinni í veiðigjald í ár, eða sem nemur um 616 milljónum króna. Það er töluvert hærri fjárhæð en veiðar á ýsu skiluðu á fyrstu 6 mánuðunum í fyrra (391 milljón króna). Það má rekja til þess að meiri afla var landað af ýsu í ár en í fyrra og krónutala veiðigjalds fyrir ýsu er hærri í ár en í fyrra. Sömu sögu má segja um veiðar á kolmunna sem skipa fjórða sætið í þessari upptalningu, en þær hafa skilað um 564 milljónum króna í veiðigjald á fyrri árshelmingi samanborið við 334 milljónum á sama tímabili í fyrra.

Í töflunni hér að neðan má sjá sundurliðun á veiðigjaldi á fyrri árshelmingi. Þar má sjá afla, þá krónutölu sem greiða þarf í veiðigjald af hverju kílói sem landað er og svo það sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa greitt í veiðigjald af hverri tegund, bæði í ár og í fyrra. Jafnframt má sjá hve mikill afsláttur hefur verið gefinn af veiðigjaldi á árinu, en hver gjaldskyldur aðili fær 40% afslátt af fyrstu 7.867.192 krónum sem hann greiðir í veiðigjald í ár. Nánari umfjöllun um veiðigjald má sjá í grein á Radarnum sem birt var í sumar sem og á mælaborði Radarsins.

 

Deila frétt á facebook