Vægi sjávarútvegs ekki meira frá árinu 2007
1. desember, 2020
Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru rúmlega 724 milljarðar króna á fyrstu þremur fjórðungum ársins samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan hefur birt. Það er 35% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi. Áhrifin af COVID-19 sjást hjá flestum ef ekki öllum útflutningsgreinum, en áhrifin eru þó vissulega mismikil eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.
Ekki fagnaðarefni
Á undanförnum árum hafa sjávarafurðir vegið um fimmtung í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum. Á fyrstu níu mánuðum ársins er vægi sjávarafurða í útflutningstekjum rúm 27% og hefur það hlutfall ekki verið hærra frá árinu 2007. Þessi aukna hlutdeild er ekkert sérstakt fagnaðarefni enda kemur hún ekki til af góðu og er einkum vegna verulegs samdráttar í tekjum annarra mikilvægra útflutningsgreina, sér í lagi ferðaþjónustu. Þar að auki hafa útflutningstekjur af sjávarafurðum dregist saman um tæp 7% á milli ára í erlendri mynt á ofangreindu tímabili. Vissulega er þó afar jákvætt að gangurinn í sjávarútvegi hefur verið betri en það sem menn þorðu að vona í fyrstu þegar faraldurinn skall á. Margir kunna að hugsa að eðlilegt sé að vel gangi í sjávarútvegi á tímum sem þessum, því hvernig sem allt í veröldinni veltist, þurfi fólk að borða. Það er ekki svo einfalt og árangur við að veiða og selja afurðir á mörkuðum erlendis er hreint ekki sjálfgefinn. Hann má fyrst og fremst þakka sveigjanleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og fjárhagslega sterkum og vel reknum fyrirtækjum. Hér er ágætt að hafa í huga að á sama tíma keppast ríki beggja vegna Atlantshafsins við að dæla fjármunum skattgreiðenda inn í sjávarútveginn. Þessu er öfugt farið hér á landi, því íslenskur sjávarútvegur greiðir sérstakt gjald til ríkissjóðs, veiðigjald, en nýtur ekki styrkja frá ríkinu.
Það leynast jákvæðar tölur
Ástandið nú vegna COVID-19 hefur komið niður á öllum útflutningsgreinum, en áhrifin eru vissulega mismikil, eins og áður segir. Ástandið dregur þó vel fram hversu mikilvægt það er að útflutningur sé sem fjölbreyttastur. Verður sjaldan of oft kveðið, að því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því minni verða áhrifin á hagkerfið og þar með á hagsæld þjóðarinnar, þegar í bakseglin slær hjá einstaka útflutningsgreinum. Fiskeldi er ein fárra útflutningsgreina sem er í vexti um þessar mundir og aflar meiri gjaldeyristekna en í fyrra. Vissulega er greinin enn fremur smá í sniðum miðað við stóru útflutningsgreinarnar þrjár, en þar felast mikil tækifæri til verðmætasköpunar og aukinnar atvinnu eins og fjallað hefur verið um á Radarnum.