Vægi Frakklands aldrei meira

17. janúar, 2022

Viðskipti Frakka með íslenskt sjávarfang hafa vaxið hröðum skrefum undanfarin ár. Á því varð engin breyting í fyrra, öðru nær. Útflutningur til Frakklands náði nýjum hæðum og hann nálgast óðfluga Bretland sem hefur verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir samfellt í rúma þrjá áratugi. Franski markaðurinn er hágæðamarkaður og betur borgandi en flestir aðrir. Enda eru Frakkar þekktir fyrir að kunna að njóta góðs matar þar sem gæði, gott hráefni og ferskleiki eru í öndvegi. Mörgum Íslendingum kann eflaust að finnast sem íslenskur fiskur eigi greiðan aðgang að þessum markaði, en í þeim efnum er ekkert sjálfgefið. Sú mikla fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í tækni og nýsköpun og svo markaðssetning fyrirtækjanna hefur hér skipt sköpum. Það þarf allt að smella! 


Um fimmtungs aukning á milli ára
Aðeins liggja fyrir tölur um útflutning til einstakra landa á fyrstu 11 mánuðum nýliðins árs. Á því tímabili var verðmæti útfluttra sjávarafurða til Frakklands komið í tæpa 39 milljarða króna. Það dugar þó til þess að fullyrða að Frakkland hafi aldrei skipað jafn stóran sess í viðskiptum með íslenskt sjávarfang, enda voru verðmætin þá þegar orðin meiri en þau hafa áður verið á heilu ári. Miðað við fyrstu 11 mánuði ársins 2020 var um 18% aukningu að ræða í krónum talið, en í evrum var aukningin rúmt 21%.

Hlutdeild Frakklands í útflutningsverðmæti sjávarafurða alls á tímabilinu var 14,4%. Til gamans má geta að tölur Hagstofunnar um útflutning á sjávarafurðum til einstakra landa ná aftur til ársins 1930. Frá þeim tíma hefur vægi Frakklands, á einu ári, mest farið í 13,5% sem var árið 2020. Eru því afar góðar líkur á því að það met hafi verið slegið í fyrra. Það mun koma í ljós í lok janúar þegar Hagstofan birtir tölur um útflutning til einstakra landa í desember. Fyrir fram hefði þó mátt ætla að vægi Frakklands myndi dragast nokkuð saman á milli ára þar sem nánast allur útflutningur þangað er botnfiskur. En eins og lesa má í nýlegri grein á Radarnum má rekja þá aukningu sem varð á útflutningsverðmæti sjávarafurða á nýliðnu ári að langstærstum  hluta til loðnu, en nánast enginn útflutningur er á loðnuafurðum til Frakklands.
 


Stærsti markaðurinn fyrir botnfiskafurðir
Mikil aukning á útflutningi til Frakklands hefur orðið til þess að það er orðið stærsta viðskiptaland Íslendinga þegar kemur að botnfiski. Verðmæti útfluttra botnfiskafurða til Frakklands var komið í rúma 37 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021, sem gerir um 21% af heildarverðmæti útfluttra botnfiskafurða á tímabilinu. Miðað við fyrstu 11 mánuði ársins 2020 var aukningin um 19% í krónum talið og um 22% í evrum. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var Frakkland með yfirburðarstöðu í fyrra. Hlutdeild Breta, sem er nú önnur stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með botnfisk, var rúm 17% á sama tímabili. Bandaríkin og Spánn skipa svo þriðja og fjórða sætið, en hlutur þeirra var tæp 12% og 10%.


Komið með yfirburðastöðu í þorskinum
Langmest er flutt út af þorski til Frakklands, en frá og með árinu 2017 hefur Frakkland verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með þorskafurðir. Fluttar voru út þorskafurðir til Frakklands fyrir tæpa 29 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Það er um 14% aukning í krónum talið frá sama tímabili árið á undan. Hlutur Frakklands í útflutningsverðmæti þorskafurða á tímabilinu var um 24% og er það því komið með nokkuð afgerandi forystu á næstu lönd. Bretland er annað stærsta viðskiptaland Íslendinga með þorskafurðir, en hlutdeild þess var rúm 16% á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021. Spánn er í þriðja sæti (13%) og Bandaríkin í því fjórða (12%).

Þegar eingöngu er horft á ferskar þorskafurðir er hlutur Frakklands enn meira afgerandi. Á myndinni hér að neðan má sjá útflutningsverðmæti þorskafurða fyrstu 11 mánuði, undanfarin þrjú ár, til 8 stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga með þorsk. Frakkland ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að ferskum þorskafurðum, en hér er ekki talinn með ísaður heill þorskur eða hausskorinn ferskur þorskur. Um 55% útflutningsverðmæta ferskra þorskafurða fóru til Frakklands.


Veruleg aukning í öðrum botnfisktegundum
Þar sem þorskurinn er svo fyrirferðarmikill falla aðrar botnfisktegundir gjarnan í skugga hans, en þar eru þó einnig heilmikil tíðindi á ferð. Sé þorskur undanskilinn í útflutningi botnfiskafurða til Frakklands, námu verðmæti botnfiskafurða 8,6 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021. Það er 41% aukning í krónum talið frá sama tímabili árið 2020. Þar munar mest um að útflutningsverðmæti ufsaafurða tvöfaldaðist á tímabilinu, en eins var dágóð aukning á afurðum steinbíts (45%), ýsu (31%) og karfa (14%). Vægi Frakklandsmarkaðar með karfa (14%) er á svipuðu róli og undanfarin ár, en með ufsa (22%), steinbít (47%) og ýsu (11%) hefur hann aldrei skipað jafn stóran sess og á árinu 2021. Því er Frakkland er ekki einungis stærsta viðskiptaland Íslands með þorsk, heldur einnig steinbít og var í fyrsta sinn stærst þegar kemur að ufsa (22%). Frakkland var svo annað stærsta viðskiptalandið með karfa og hið þriðja í röðinni með ýsu.

 

Deila frétt á facebook