Útflutningur á öðrum ársfjórðungi

27. ágúst, 2020

Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru um 216 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi. Það er rúmlega 34% samdráttur í krónum talið frá sama tímabili í fyrra, eða sem nemur um 113 milljörðum króna. Í erlendri mynt er samdrátturinn ívið meiri, eða rúm 41%, enda var gengi krónunnar að jafnaði um 11% lægra á öðrum ársfjórðungi nú en á sama tíma í fyrra. Vart þarf að nefna að hér gætir áhrifa COVID-19, sem hefur haft verulega neikvæð áhrif á helstu útflutningsatvinnuvegina, þó áhrifin séu vissulega mismikil eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.

Mesti samdráttur frá upphafi þjóðhagsreikninga

Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans, sem birt var í gær, er gert ráð fyrir 28% samdrætti í útflutningi í ár. Ef hún rætist yrði það mesti samdráttur í útflutningi á heilu ári frá upphafi þjóðhagsreikninga. Þar vegur þyngst samdráttur í ferðaþjónustu, enda hefur sú atvinnugrein orðið einna harðast úti vegna COVID-19. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að ferðamönnum fækki um 75% frá fyrra ári. Útflutningstekjur af ferðaþjónustu voru um 35% af útflutningstekjum þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta í fyrra og er því ljóst að höggið af þessari miklu fækkun ferðamanna er þungt. Seðlabankinn gerir einnig ráð fyrir samdrætti í vöruútflutningi og stærstu liðunum þar undir. Bankinn spáir 2% samdrætti í útflutningi á áli og álafurðum í ár og ef það verður raunin, verður þetta þriðja árið í röð sem samdráttur á sér stað í álútflutningi. Hér ber að geta að hér er verið að ræða um magn en ekki útflutningsverðmæti, þar sem gengi og afurðaverð koma einnig við sögu. Ál og álafurðir vógu um 16% af útflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra.  

Seðlabankinn gerir ráð fyrir 8% samdrætti í útflutningi á sjávarafurðum í ár. Það er heldur minna en sá 12% samdráttur sem hann spáði í maí. Þessa breytingu má einna helst rekja til þess að gangurinn í sjávarútvegi á öðrum ársfjórðungi var betri en bankinn hafði reiknað með. Er hér vísað til þess að dreifing á sjávarafurðum hafi gengið betur og eftirspurn verið þróttmeiri. Því hafi minna safnast upp af birgðum og samdráttur í veiðum verið minni. Það er vitaskuld ekkert sjálfgefið í þessum efnum, en ljóst má vera að sveigjanleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja skiptir sköpum. Sjávarafurðir vógu um fimmtung af útflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra.
 

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin
Af ofangreindu er ljóst að horfur eru á talsverðum samdrætti í okkar helstu útflutningsgreinum í ár, þó vissulega mismiklum vegna mismikilla áhrifa COVID-19. Tekjur frá þessum þremur stærstu útflutningsgreinum landsins voru um 71% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra. Það er því mikið undir þegar í bakseglin slær hjá einni eða jafnvel öllum þremur atvinnugreinunum, líkt og gerðist í fyrra (sjá hér) og vísbendingar eru um að svo verði aftur nú. Þó hið fordæmalausa ástand nú komi vissulega niður á flestum útflutningsgreinum, þá er ljóst að því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því dreifðari verður áhættan. Þrátt fyrir að fiskeldi sé ennþá frekar smátt í sniðum á Íslandi og hafi orðið fyrir áhrifum af COVID-19, er þróunin þar afar jákvæð um þessar mundir, eins og fjallað var um nýlega á Radarnum (sjá hér). Fiskeldi er ein af fáum útflutningsgreinum sem er í vexti um þessar mundir og hefur alla burði til að vaxa að magni til á tiltölulega skömmum tíma. Því felast þar mikil tækifæri til verðmætasköpunar.
 

 

Deila frétt á facebook