Útflutningstekjur laxeldis aldrei meiri
7. október, 2024
Á fyrstu átta mánuðum ársins námu útflutningsverðmæti eldisafurða tæpum 31 milljarði króna. Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra, þá hvort tveggja á breytilegu og föstu gengi. Þessa aukningu má að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Þannig er útflutningsverðmæti lax komið í rúma 25 milljarða króna, sem er um þriðjungs aukning á milli ára og met á tilgreindu tímabili. Að auki hefur útflutningsverðmæti Senegal flúru aldrei verið meira, en það er komið í tæplega 1,2 milljarða króna, sem er um þreföldun frá sama tímabili í fyrra.
Á hinn bóginn er þó nokkur samdráttur í útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja. Útflutningsverðmæti silungs er komið í 3 milljarða króna, sem er um 19% samdráttur frá sama tímabili í fyrra. Þar hafa jarðhræringar og eldsumbrot í Grindavík sett strik í reikninginn. Þá er einnig 27% samdráttur í útflutningsverðmæti frjóvgaðra laxahrogna, en verðmæti þeirra nemur um 1,2 milljarði króna á fyrstu átta mánuðum ársins.
Sjókvíaeldi meginstoðin í dag
Sú aukning sem orðið hefur í útflutningsverðmæti eldislax á árinu má vafalaust að langmestu leyti rekja til sjókvíaeldis en þó má reikna með að útflutningur frá landeldi sé farinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, þá hefur meginþorri framleiðslunnar á laxi hér á landi farið fram í sjó á undanförnum árum, eða sem nemur um 95% af allri framleiðslunni.
Uppbygging í sjókvíaeldi er vel á veg komin, þó enn sé einungis helmingur framleiðsluheimilda í nýtingu. Það mun því áfram vera hryggjarstykkið í framleiðslu á laxi á allra næstu árum. Þó má vænta að forskotið minnki með tímanum miðað við þá umfangsmiklu uppbyggingu sem er bæði að eiga sér stað og er í kortunum í landeldi. Sú uppbygging er þó bæði kostnaðarsöm og tímafrek og enn er löng leið í átt að fullri framleiðslugetu. Samspil sjókvíaeldis og landeldis mun þó án nokkurs vafa tryggja greininni breiðari stoðir og sterkari stöðu til framtíðar.
Framtíðin er björt í sjó og á landi
Af ofangreindu má vera ljóst að Íslendingar standi frammi fyrir miklum tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar í hagkerfinu í gegnum fiskeldi, þá bæði í sjó og á landi. Það er því ekki að undra að varla sé gefin út efnahagsspá þar sem ekki er minnst á fiskeldi, þá hvort sem það er í samhengi útflutnings eða atvinnuvegafjárfestingar. Nærtækt er að nefna nýlega spá Greiningar Íslandsbanka en hún gerir ráð talsverðri aukningu í útflutningi á eldisfiski á spátímanum sem spannar árið í ár og næstu tvö ár. Vegur aukinn útflutningur eldisafurða á móti samdrætti í öðrum vöruútflutningi þetta ár að mati Greiningar en ýtir undir almennan útflutningsvöxt á komandi árum. Í spánni er jafnframt gert ráð fyrir að almenn fjárfesting fyrirtækja hér á landi muni heldur sækja í sig veðrið á næstunni og er tekið fram að þar muni ekki síst um myndarlega uppbyggingu tengda landeldi.
Aukin umsvif í fiskeldi hér á landi eru jafnframt afar jákvæð fyrir þær sakir að fjölbreytileiki atvinnulífsins eykst. Það er afar mikilvægt eins og endurspeglast vel í nýlegri fréttatilkynningu lánshæfismatsfyrirtækisins Moody’s í tengslum við hækkun fyrirtækisins á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Þar var einmitt vísað til þess að einkunnin gæti verið hækkuð frekar ef áframhaldandi aukinn fjölbreytileiki efnahagslífsins myndi draga úr sveiflum í hagvexti. Án nokkurs vafa er hér verið að vísa meðal annars til aukinna umsvifa fiskeldis hér á landi, þó fyrirtækið tilgreinir enga atvinnugrein sérstaklega í þessu sambandi. Fiskeldi er ein þeirra útflutningsgreina sem hefur verið í hvað mestum vexti á undanförnum árum og horfur eru á enn frekari vexti á komandi árum. Það sem stendur lánshæfismati ríkissjóðs einmitt einna helst fyrir þrifum er smæð og einsleitni hagkerfisins, sem lengi vel hefur hvílt á fremur fáum stoðum. Það gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum þegar í bakseglin slær hjá tilteknum atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi og ferðaþjónustu. En að þessu sögðu má öllum vera ljóst að enginn vafi leikur á því að vöxtur í fiskeldi er þjóðinni til heilla, enda hvílir efnahagsleg hagsæld Íslendinga á öflugum og fjölbreyttum útflutningsgreinum.