Útflutningstekjur af fiskeldi aldrei meiri

10. janúar, 2022

Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða á nýliðnu ári var rúmir 36 milljarðar króna og hefur það aldrei áður verið meira. Það kemur ekki á óvart, enda var útflutningur í október í fyrra orðinn meiri en hann var allt árið 2020. Í krónum talið er aukningin 23% frá árinu 2020. Aukning í erlendri mynt er aðeins meiri, eða rúmlega 26%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði ríflega 2% sterkara á árinu 2021 en 2020. Útflutningsverðmæti eldisafurða er um 5% af heildarverðmæti alls vöruútflutnings í fyrra en rúm 12% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Þetta sést í tölum sem Hagstofan birti á föstudag og hafa hlutföllin aldrei verið hærri. Þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í desember. Ekki liggur fyrir sundurliðun á útflutningsverðmæti einstakra tegunda eldisafurða fyrir árið, en tölur þess efnis verða birtar í lok mánaðar.


Má nánast alfarið rekja til laxeldis
Samhliða bráðabirgðatölum fyrir desember, birti Hagstofan einnig endurskoðaðar tölur fyrir nóvember þar sem sjá má sundurliðun niður á tegundir fiskeldis. Þar sést að útflutningsverðmæti af eldislaxi var komið í rúma 25 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins 2021. Það er um 50% aukning á föstu gengi frá sama tímabili árið 2020. Vóg eldislax rúmlega 76% af útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu 11 mánuðum ársins, en það hefur aldrei mælst svo hátt, að minnsta kosti ekki á þessari öld. Eldislax skýtur loðnunni ref fyrir rass, en útflutningsverðmæti loðnuafurða á fyrstu 11 mánuðum ársins var rúmir 23 milljarðar króna. Eldislax skilaði næst mestu útflutningsverðmæti á tímabilinu af fisktegundum sem fluttar er frá Íslandi, þorskurinn er vitaskuld í fyrsta sæti. Af öðrum afurðum sem flokkast til eldisafurða má nefna frjóvguð hrogn, sem eru verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra nam um 2,3 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins og jókst um rúm 27% á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, nam 4,5 milljörðum króna og dróst saman um rúm 12% á milli ára. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam um 1 milljarði króna og stóð í stað á milli ára.


Fiskur fyrirmikill í útflutningstölum
Ástandið á undanförnum tveimur árum ætti að hafa opnað augu flestra fyrir því hversu mikilvægt það er að hafa fleiri og fjölbreyttari stoðir undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Aukin umsvif í fiskeldi á undanförnum árum hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og sjást ummerki þess víða, eins og lesa má um í nýlegri grein á Radarnum. Sökum smæðar íslenska hagkerfisins, á eyju langt norður í Atlantshafi, er erfitt að ná yfirburðastöðu á einhverju sviði. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa þó fyrir löngu sýnt að þegar veiðar, vinnsla og sala á villtum fiski á í hlut, eru þau fremst á heimsvísu. Þegar fram líða stundir mun sú mikla reynsla og þekking sem þar er, koma íslensku fiskeldi til góða. Tækifæri eru til frekari verðmætasköpunar heima fyrir, eins og fullvinnsla afurða en á henni hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki yfirburðar þekkingu. Þar við bætist að íslensk tæknifyrirtæki eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að vinnslu og kælingu á fiski. Miðað við áform, sem eru uppi um frekara fiskeldi á komandi árum bæði á landi og í sjó, er vandséð annað en að fiskur verði áfram fyrirferðarmikill í útflutningstölum, þótt umsvif annarra greina aukist vonandi einnig. Í fyrra námu samanlagðar tekjur af sjávar- og eldisafurðum um 329 milljörðum króna, eða um 44% af útflutningstekjum þjóðarinnar af vöruskiptum.

 

 

Deila frétt á facebook