Umsvif fiskeldis stóraukast
28. janúar, 2020
Framleiðslumet var sett í fiskeldi á nýliðnu ári. Var alls slátrað um 34 þúsund tonnum á árinu samanborið við 19 þúsund tonn árið á undan. Jafngildir það hátt í 80% aukningu. Aukninguna má að langmestu leyti rekja til slátrunar á laxi, sem tvöfaldaðist milli ára. Fór framleiðslan úr rúmlega 13,4 þúsund tonnum í tæp 27 þúsund tonn. Framleiðsla á bleikju jókst einnig töluvert, en hún fór úr rúmlega 4,9 þúsund tonnum í rúm 6,3 þúsund tonn. Jafngildir það aukningu upp á rúm 29%. Þessi þróun rímar vel við tölur Hagstofunnar um stóraukinn útflutning á eldisafurðum á nýliðnu ári. Eru góðar líkur á að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í kringum 25 milljarða króna á árinu, eins og fjölluðum nýlega um.
Eflir byggðakjarna
Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum. Mest er framleiðslan á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur framleiðslan á því svæði margfaldast á undanförnum árum. Alls var slátrað rúmlega 16.100 tonnum á Vestfjörðum á árinu 2019 samanborið við um 8.500 tonn árið 2018. Jafngildir það aukningu upp á 90%. Næstmest var framleiðslan á Austfjörðum, um 9.700 tonn á árinu 2019 samanborið við rúm 3.700 tonn árið 2018. Jafngildir það aukningu upp á tæp 160%. Þessi þróun hefur verið af kærkomin fyrir byggðarlögin þar sem þessi mikla aukning hefur átt sér stað, enda eflir hún atvinnulífið til muna og er helsta undirstaða þess að byggð geti þróast og haldið velli. Ofangreindar tölur voru nýlega uppfærðar á Radarnum, þar sem jafnframt má sjá hinu ýmsu upplýsingar um fiskeldi og sjávarútveg.