Það gefur á bátinn ...

3. júní, 2020

Útflutningur á sjávarafurðum hefur dregist verulega saman það sem af er ári, borið saman við sama tímabil í fyrra. Samdráttinn  má rekja til loðnubrests, annað árið í röð, brælu í upphafi árs og svo síðast en ekki síst COVID-19 sem hefur valdið miklum erfiðleikum í sjávarútvegi. Þetta rímar ágætlega við nýlega spá Seðlabankans sem gerir ráð fyrir að útflutningur á sjávarafurðum dragist saman um 12% frá fyrra ári. Ef spá bankans rætist verður það mesti samdráttur í sjávarútvegi frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þess má geta að hér er átt við magn, en ekki útflutningsverðmæti þar sem afurðaverð og gengi koma við sögu.

Sé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða dregist saman um 4% í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt má einkum rekja til ríflega 14% samdráttar í útfluttu magni. Það sem vegur á móti þessum mikla samdrætti í magni er tæplega 5% hærra verð fyrir útfluttar afurðir í erlendri mynt og rúmlega 6% lækkun á gengi krónunnar, sem styður við afkomu greinarinnar í krónum talið. Þetta er talsvert verri staða en var upp á teningnum á fyrsta ársfjórðungi. Þá stóð útflutningsverðmæti sjávarafurða nánast í stað á milli ára og gengi krónunnar og afurðaverð í erlendri mynt vógu upp samdrátt sem var í útfluttu magni. Gefur því auga leið að apríltölurnar voru ekki upp á marga fiska, en þar gætir áhrifa  COVID-19. Þannig var verulegur samdráttur í útfluttu magni og eins verðlækkun afurða á erlendum mörkuðum, sem rímar vel við þá þróun sem var á verðvísitölu sjávarafurða í apríl og við fjölluðum nýlega um.

Verulegur samdráttur í apríl
Útflutningsverðmæti sjávarafurða var tæpir 17,8 milljarðar króna í apríl, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þetta er um 17% samdráttur í krónum talið miðað við apríl í fyrra, en vegna lækkunar á gengi krónunnar er hann öllu meiri í erlendri mynt, eða sem nemur um 28%. Þar munar einna mest um samdrátt í útflutningi á sjófrystum og ferskum afurðum sem er bein afleiðing af COVID-19. Nefna má bein áhrif í okkar helstu viðskiptalöndum eins og til dæmis á ferðaþjónustu sem nánast lagðist af og á veitingahús sem var lokað. Eins var verulegur samdráttur í útflutningi á fiskimjöli og frystum hrognum. Sjá má sundurliðun á útflutningsverðmæti sjávarafurða í apríl eftir helstu flokkum á myndinni hér fyrir neðan. Hafa ber í huga að upphæðirnar hafa ekki verið leiðréttar fyrir gengi krónunnar, en yrði slíkt gert yrði munurinn á milli 2019 og 2020 öllu meiri enda var gengi krónunnar 13% lægra nú í apríl en apríl 2019.

Enn meiri samdráttur í vændum?
Tilraunatölfræði Hagstofunnar, sem eru vikulegar upplýsingar um útflutningsverðmæti helstu vöruflokka, gefa til kynna að enn meiri samdráttur sé í kortunum í maí hvað útflutning sjávarafurða varðar. Nú þegar liggja fyrir upplýsingar um fyrstu 21 viku ársins, og vantar því aðeins viku 22 þannig að allur maí sé undir. Hún verður eflaust birt á föstudag samhliða bráðabirgðatölum um vöruskipti í maí. Ef útflutningsverðmæti sjávarafurða verður í takti við það sem það hefur verið undanfarnar vikur, erum við að fara að sjá enn meiri samdrátt í útflutningi sjávarafurða með maí tölunum. Þannig er útflutningsverðmæti sjávarfurða komið upp í tæpa 97 milljarða króna á fyrstu 21 viku ársins samanborið við 108 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þetta er 10% samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða í krónum talið en um 17% í erlendri mynt.

 

Deila frétt á facebook