Sjávarafurðir: Vísbendingar um verulegan samdrátt

5. maí, 2020

Ný tilraunatölfræði Hagstofunnar bendir til þess að áhrif COVID-19 séu veruleg á útflutning á sjávarafurðum. Þessar tölur, sem birtar voru í gær, hafa að geyma vikulegar bráðabirgðatölur um vöruviðskipti á fyrstu 17 vikum ársins. Ætla má að áhrifa af COVID-19 gæti frá viku 13, eða í kringum 20. mars. Útflutningur næstu fjórar vikur á eftir, fram til viku 17, nam 19 milljörðum króna. Útflutningurinn nam rúmlega 25 milljörðum króna þessar sömu vikur í fyrra. Þetta er um 26% samdráttur í krónum talið en rúm 34% á föstu gengi.

Líkt og ofangreindar tölur benda til, þá hefur sjávarútvegur ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem upp hafa komið vegna COVID-19, og við höfum áður fjallað um. Skipulagið sem sjávarútvegur býr við kemur þó í veg fyrir að verr fari, því það flýtir fyrir aðlögun hans vegna breyttra aðstæðna. Verður því áhugavert að fylgjast með framvindunni á næstu vikum en þessi framtaksemi Hagstofunnar, með vikulegri útgáfu til þess fylgjast betur með áhrifum COVID-19, er afar jákvæð að okkar mati. Strax á fimmtudaginn kemur mun Hagstofan birta bráðabirgðatölur um vöruskipti í apríl og hugsanlega tilraunatölfræði fyrir viku 18. Ör birting talna og gagna mun koma sér vel og hjálpa til við að móta viðbrögð við því ástandi sem uppi er.   

Sviptingar í útflutningstölum
Verulegar vendingar urðu á tölum um útflutning á sjávarafurðum á fyrsta fjórðungi ársins, en þær voru birtar á fimmtudag. Stuttu eftir að Hagstofan birti þær, að morgni dags, kom í ljós að útflutningsverðmæti sjávarafurða var ofmetið um tæpa 12 milljarða króna, en það var leiðrétt samdægurs. Fór útflutningsverðmæti sjávarafurða úr því að vera talið 75 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi, niður í rúma 63 milljarða.

Skekkju Hagstofunnar á tölum um útflutningsverðmæti má rekja til verklags tollayfirvalda, sem við höfum fjallað nokkuð um að undanförnu. Hefur verið bent á að tölurnar komi alltof seint og fangi því ekki ástandið á hverjum tíma. Þessa 12 milljarða skekkju má einmitt rekja til útflutnings á árunum 2014 til 2018, en gögn um hann bárust Hagstofunni á fyrsta ársfjórðungi í ár. Gögnin voru því allt að 6 ára gömul. Það skal þó tekið fram að afar sjaldgæft er að gögn sem Hagstofunni berast seint séu svo gömul og upphæðir eins háar og í þessu tilfelli.

Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi
Eins og áður segir nam útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrsta ársfjórðungi rúmlega 63 milljörðum króna. Er það nánast sama og verðmæti þeirra var í krónum talið á fyrsta fjórðungi í fyrra. Á föstu gengi mælist hins vegar samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða upp á tæp 4%. Það er fyrst og fremst samdráttur í útfluttu magni sem skýrir þetta og má að einhverju leyti rekja það til slæms tíðarfars í upphafi árs. Ætla má að áhrifin af COVID-19 séu jafnframt nokkur, en þeirra byrjaði þó ekki að gæta fyrr en langt var liðið á mars.

Eftir helstu vinnslutegundum má einna helst rekja samdráttinn (bæði í verðmætum og magni) til minni útflutnings á fiskimjöli, lýsi og ferskum afurðum. Á hinn bóginn virðist ágætis aukning vera í útflutningi á söltuðum afurðum. Á myndinni hér fyrir neðan eru saltaðar og þurrkaðar afurðir flokkaðar saman, en samdráttur var í útflutningi á þurrkuðum afurðum.  
 

 

Deila frétt á facebook