Sjávarafurðir: Veruleg aukning í nóvember
8. desember, 2021
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,2 milljörðum króna í nóvember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er umtalsverð aukning frá nóvember í fyrra, eða sem nemur um 25% í krónum talið. Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 32%, enda var gengi krónunnar að jafnaði 6% sterkara nú í nóvember en í sama mánuði í fyrra. Á þann kvarða hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða í nóvembermánuði ekki verið meira undanfarinn áratug. Hér ber að halda til haga að tölurnar hafa ekki verið leiðréttar fyrir verðlagi, heldur einungis breytingum á gengi krónunnar.
Ferskar afurðir sjaldan verið meiri
Fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar eru ekki birtar fyrir tegundir eða lönd, einungis vinnsluflokka. Síldin hefur almennt verið fyrirferðamikil í útflutningstölum á þessum árstíma, og miðað við veiðar undanfarið má telja líklegt að hún eigi einhvern þátt í ofangreindri aukningu. Eins má ætla að þorskurinn skýri einhvern hluta þar sem veruleg aukning er á verðmætum útfluttra ferskra afurða, eða sem nemur um 34% á föstu gengi. Nam verðmæti þeirra um 8,5 milljörðum króna í mánuðinum, en það hefur aðeins tvisvar sinnum áður verið meira í einum mánuði. Í raun er aukning í öllum flokkum á milli ára, að undanskildum söltuðum og þurrkuðum afurðum þar sem lítilsháttar samdráttur mælist og á lýsi, en þar er rúmlega 43% samdráttur. Lýsi er hér flokkað með fiskimjöli á myndinni, en útflutningsverðmæti á mjöli eykst um tæp 50% á milli ára á föstu gengi og vegur þá upp, og gott betur, þann samdrátt sem er vegna lýsis.
Rúmlega 11% aukning það sem af er ári
Sé tekið mið af fyrstu 11 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 268 milljarða króna. Það er um 9% aukning í krónum talið en rúmlega 11% í erlendri mynt. Gengi krónunnar hefur að jafnaði verið rúmlega 2% sterkara á fyrstu ellefu mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Af einstaka afurðaflokkum munar mest um mikla aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en sem kunnugt er þá koma loðnuhrogn þar við sögu. Er útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ komið í rúma 29 milljarða króna og hefur ekki verið meira að minnsta kosti undanfarinn áratug. Frá sama tímabili í fyrra er um 93% aukning að ræða á föstu gengi. Loðnan kemur einnig við sögu í þeirri aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski á milli ára. Nemur útflutningsverðmæti þess flokks um 35 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins, sem er rúmlega 22% aukning á milli ára. Um 12% aukning hefur verið í útflutningi á ferskum afurðum á árinu og er útflutningsverðmæti þeirra komið í rúma 79 milljarða króna og hefur aldrei áður verið meira. Útflutningsverðmæti á frystum flökum hefur svo aukist um rúm 3% á milli ára og á lýsi um 2%.
Útflutningsverðmæti annarra flokka, en þeirra sem taldir eru upp hér á undan, dregst saman á milli ára. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða er rúmlega 5% minna á föstu gengi en það var á sama tímabili í fyrra. Rúmlega 7% samdráttur hefur orðið í verðmæti útfluttrar rækju og eins og sjá má á myndinni þá hefur rækja, undanfarinn áratug, ekki skilað jafn litlum verðmætum og í ár. Að lokum má svo nefna fiskimjöl, en þar er rúmlega 8% samdráttur og útflutningsverðmæti þess hefur heldur ekki verið minna á þessum áratug. Vafalaust mun verða viðsnúningur í þeim efnum á næstu mánuðum með þeim stóra loðnukvóta sem úthlutað var á yfirstandi fiskveiðiári. En eins og fram hefur komið í fréttabréfi á Radarnum þá fer almennt hlutfallslega meira í bræðslu, eftir því sem kvótinn er stærri. Því verður meiri útflutningur á fiskimjöli og lýsi.