Sjávarafurðir: Verðmæti í takti við fyrstu tölur
2. mars, 2020
Útflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar nam 23 milljörðum króna, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þetta er 3% aukning í krónum talið milli ára en um 2% á föstu gengi. Í tonnum talið er aukningin umtalsvert meiri, eða rúm 35%. Þessi mikli munur á breytingu á verðmætum og magni endurspeglar hversu fjölbreyttar og misverðmætar sjávarafurðir eru, en samsetning þeirra í útflutningi getur verið afar mismunandi á milli mánaða eða ára. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti á föstudag.
Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða ríflega tvöfaldast
Miðað við einstaka tegundahópa er mesta breytingin á milli ára á útflutningsverðmæti uppsjávarafurða. Nam verðmæti uppsjávartegunda 7,0 milljörðum króna nú í janúar samanborið við 3,3 milljarða í fyrra. Af einstaka tegundum þar undir munar langmest um makríl, en útflutningsverðmæti makrílafurða nam um 3,3 milljörðum króna í janúar samanborið við tæplega 0,7 milljarða í janúar í fyrra. Útflutningsverðmæti loðnuafurða nam tæpum 0,6 milljörðum króna og virðist þar með enn vera að mjatlast úr loðnubirgðum, sem eru að klárast ef þær eru ekki þegar búnar. Þá er möguleiki á að umræddar afurðir hafi verið fluttar út fyrir alllöngu síðan en vegna verklags hjá Tollstjóra sem gögn Hagstofu byggjast á, eru umrædd gögn að birtast núna. Slíkur tímamismunur er mun algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir.
Eins og sjá má á myndinni á undan var þó nokkur samdráttur í útflutningsverðmæti botnfiskafurða í janúar á milli ára, eða sem nemur rúmum 13% í krónum talið. Þar munar mest um þorskinn en útflutningsverðmæti hans dróst saman um rúm 14% á milli ára. Eins var þó nokkur samdráttur í verðmæti ýsu og ufsa, eða um 25% og 18% á milli ára.
Mikil aukning í tonnum talið
Talsvert önnur hlutdeild er í einstaka tegundaflokkum þegar tekið er mið af magni í stað verðmæta, sem endurspeglar hversu fjölbreyttar og misverðmætar tegundirnar eru eins og áður segir. Sjá má að uppsjávarafurðirnar eru mun fyrirferðameiri í magntölum en í tölum um verðmæti. Var hlutdeild þeirra í magni hátt í 60% en í verðmætum rúm 30%. Hið gagnstæða á við um botnfiskafurðir, en þær vógu um 31% af magni en um 63% af verðmætum nú í janúar.
Tegundir endurspeglast í vinnslunni
Samsetning afurðanna eftir vinnslu nú í janúar kemur heim og saman við ofangreinda þróun. Mestu munar einmitt um frystar afurðir í janúar, en útflutningur þeirra jókst um 22% í krónum talið milli ára en um tvöföldun var að ræða í tonnum talið. Útflutningsverðmæti þurrkaðra og saltaðra afurða jókst einnig á tímabilinu, eða um rúm 7% milli ára. Samdráttur var hins vegar í útflutningsverðmæti ferskra afurða um tæp 19% og fiskimjöls og lýsi um 25% á milli ára.