Sjávarafurðir: Útflutningsverðmæti svipað á milli ára í nóvember

4. desember, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 22,7 milljörðum króna í nóvember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Það er rúmlega 15% aukning í krónum talið miðað við nóvember í fyrra. Sé leiðrétt fyrir áhrifum af gengislækkun krónunnar er útflutningsverðmæti sjávarafurða í nóvember nánast jafn mikið og það var í nóvember í fyrra. Ekki liggur fyrir frekari sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti eða magn á einstökum afurðum þróaðist í nóvember, en tölur þess efnis verða birtar 11. janúar.


Tæplega 9% samdráttur á milli ára
Á fyrstu 11 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 247 milljarða króna. Það er rétt rúmlega 1% aukning frá sama tímabili í fyrra í krónum talið en tæplega 9% samdráttur í erlendri mynt. Samdráttinn má rekja til verulegs samdráttar í útfluttu magni og eins hefur afurðaverð lækkað, eins og kom fram í nýlegri grein á Radarnum. Lækkun á gengi krónunnar hefur þar með vegið upp þessi áhrif, og lítið eitt betur þegar litið er á útflutningsverðmæti sjávarafurða í krónum talið. Þó ber að halda til haga að gengi krónunnar hefur ekki einhliða áhrif á rekstrarreikning sjávarútvegsfyrirtækja, fremur en annarra útflutningsgreina. Áhrifanna gætir einnig á ýmsan rekstrakostnað, sem ýmist lækkar eða hækkar vegna breytinga á gengi krónunnar.

 

Deila frétt á facebook