Sjávarafurðir: Útflutningsverðmæti ekki minni í mörg ár
8. maí, 2020
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 17,7 milljörðum króna í apríl samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í gærmorgun. Hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða ekki verið minna í apríl á hlaupandi verðlagi frá árinu 2012, hvort sem talið er í krónum eða í erlendri mynt. Þetta er rúmlega 17% samdráttur í krónum talið miðað við apríl í fyrra, en þá voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 21,4 milljarða króna. Gengi krónunnar hefur veikst verulega að undanförnu og var það um 13% veikara nú í apríl en í sama mánuði í fyrra. Var samdrátturinn því mun meiri mældur í erlendri mynt, eða sem nemur 28%. Þetta er í takti við umfjöllun okkar í grein sem við birtum á Radarnum fyrr í þessari viku. Í greininni voru vikulegar tölur Hagstofunnar um vöruskipti til umfjöllunar og bentu þær til þess að áhrif af COVID-19 væru veruleg á útflutning á sjávarafurðum og verðmæti afurðanna.
Hlutdeild sjávarafurða skreppur saman
Í apríl voru alls fluttar út vörur fyrir 47,1 milljarð króna samanborið við 50,2 milljarða í apríl í fyrra. Verðmæti vöruútflutnings í apríl var því rúmlega 6% minna í krónum talið (18% minna mælt í erlendri mynt) en í apríl í fyrra. Á sama tímabili dróst útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða saman um 18% í krónum talið (28% í erlendri mynt), sem gefur vísbendingu um verulegan samdrátt í útflutningsverðmæti eldisafurða, eins og við fjölluðum um í grein sem birt var í gær. Útflutningsverðmæti iðnaðarvara jókst á hinn bóginn um tæp 5% í apríl í krónum talið, en samdráttur mældist tæp 9% í erlendri mynt. Hlutdeild sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings skreppur því talsvert saman á milli ára. Var hlutdeildin tæp 38% í apríl í ár samanborið við tæp 43% í apríl í fyrra. Spurningin er hvort COVID-19 hafi meiri áhrif á sjávar- og eldisafurðir en annan útflutning, en líklega er of snemmt að álykta sem svo.