Sjávarafurðir: Talsverður samdráttur í október

15. nóvember, 2023

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,9 milljörðum króna í október samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti nýlega. Það er tæplega 14% samdráttur miðað við október í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði rétt rúmlega 1% lægra nú í október en í sama mánuð í fyrra miðað við gengisvísitölu Seðlabankans og er samdrátturinn því aðeins meiri í erlendri mynt, eða tæp 15%.


Mestu munar um fiskimjöl

Útflutningsverðmæti allra afurðaflokka dróst saman á milli ára í október, að ferskum afurðum og söltuðum og þurrkuðum afurðum undanskildum. Þannig var rúmlega 2% aukning í útflutningsverðmæti ferskra afurða á milli ára og rétt um 1% aukning á söltuðum og þurrkuðum afurðum, á föstu gengi. Í fyrrgreindum samdrætti munar mestu um samdrátt á fiskimjöli, en því er slegið saman með lýsi á neðangreindri mynd. Nam útflutningsverðmæti þess rúmlega 1,3 milljarði króna nú í október og dróst saman um 2,3 milljarða á milli ára, eða sem nemur um 63% á föstu gengi. Næst mest munar um heilfrystan fisk (-22%) og þar á eftir flokkinn „aðrar sjávarafurðir“ (-26%), en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Eins var talsverður samdráttur í verðmæti útfluttrar rækju (-26%) en minni samdráttur var í öðrum vinnsluflokkum, það er lýsi (-5%) og frystum flökum (-5%).
 


Rúmlega 6% samdráttur það sem af er ári

Ef horft er til fyrstu 10 mánaða ársins þá nemur útflutningsverðmæti sjávarafurða um 280 milljörðum króna. Það er rúmlega 6% samdráttur frá sama tíma í fyrra, að teknu tilliti til gengisbreytinga. Samdráttur er í öllum afurðaflokkum, að heilfrystum fiski undanskildum, en þar er aukning upp á rúm 15% á milli ára á föstu gengi. Þar sem einungis er um fyrstu bráðabirgðatölur að ræða í október liggur sundurliðun niður á tegundir ekki fyrir í mánuðinum, en miðað við þróunina á fyrstu 9 mánuðum ársins má gera ráð fyrir að grálúða og loðna spili stórt hlutverk í téðri aukningu. Þetta er þó eflaust eina tilfellið sem loðnan hefur áhrif til hækkunar, enda eru aðrir afurðaflokkar þar sem hún er fyrirferðarmikil að dragast saman á milli ára. Ber hér fyrst að nefna flokkinn „aðrar sjávarafurðir“ þar sem loðnuhrogn koma við sögu. Þar er samdráttur upp á tæp 25% á milli ára. Hann skrifast að stærstum hluta á verulegar verðlækkanir á loðnuhrognum sem má rekja til þess hversu mikil framleiðslan var. Það má svo aftur rekja til hversu miklu var bætt við loðnukvótann rétt í þann mund sem verðmætasti hluti loðnuverðtíðarinnar var að hefjast. Hefði viðbótarkvótinn legið fyrr fyrir hefði mun meiru verið ráðstafað í bræðslu, eins og rakið er í grein á Radarnum fyrr á þessu ári. Þetta hefur jafnframt orðið til þess að talsverður samdráttur er í útflutningsverðmæti á fiskimjöli og lýsi á milli ára, eða samanlagt um 12% á föstu gengi. Þessa þróun er vel að merkja á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir útflutning á einstaka afurðaflokkum loðnu á fyrstu 9 mánuðunum í ár og undanfarin tvö ár. Þess ber að geta að loðnuhrogn fyrir 1,8 milljarð króna voru flutt út á fyrsta fjórðungi í ár, sem eru þá hrogn frá loðnuvertíðinni á undan.
 


Af öðrum afurðaflokkum má nefna að töluverður samdráttur er í útflutningsverðmæti á frystum flökum á fyrstu 10 mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur um 11% á föstu gengi. Þar má telja að samdráttur í veiðum á ufsa eigi stærstan hlut en um þriðjungs samdráttur var í ufsaafla á fyrstu 10 mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Að endingu má nefna að lítilsháttar samdráttur er í útflutningsverðmæti á söltuðum og þurrkuðum afurðum (-2%) og rækju (-4%), en verðmæti útfluttra ferskra afurða standa hins vegar svo til í stað á milli ára.
 

 

Deila frétt á facebook