Sjávarafurðir: Stærsti aprílmánuður frá aldamótum

7. maí, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 27,3 milljörðum króna í apríl samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er tæplega 54% aukning í krónum talið miðað við apríl í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði um 5% sterkara nú í apríl en í sama mánuði í fyrra og er aukningin þar með meiri í erlendri mynt, eða um 61%. Þessi mikla aukning litast vissulega af áhrifum COVID-19 á útflutning sjávarafurða í apríl í fyrra, enda var mikil ringulreið á mörkuðum á þeim tíma og verulegt rask varð á flutningum á milli landa. En fleira kemur til eins og glögglega má sjá þegar litið er á myndina hér fyrir neðan. Þar sést að verðmæti útfluttra sjávarafurða á föstu gengi hefur ekki verið meira í aprílmánuði frá árinu 2002, sem er eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná. Er því ljóst að það kemur meira til sögunnar sem skýrir þessa myndarlegu aukningu á milli ára í apríl en einungis grunnáhrif vegna COVID-19 í fyrra.


Loðnan mætir sterk til leiks
Þrátt fyrir að útflutningsverðmæti allra undirliggjandi flokka sjávarafurða hafi aukist á milli ára í apríl, að fiskimjöli og lýsi undanskildum, þá eru tveir flokkar sem standa upp úr. Það er annars vegar „frystur heill fiskur“ og svo „aðrar sjávarafurðir“. Án nokkurs vafa má þróunina þar rekja til nýafstaðinnar loðnuvertíðar, en loðnuafurðir koma við sögu í báðum þessum afurðaflokkum. Útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski, sem vafalaust er að stærstum hluta heilfryst loðna, nam 3,3 milljörðum króna í apríl. Það er um 161% aukning á föstu gengi frá sama mánuði í fyrra. Útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ nam svo rúmlega 5,5 milljörðum króna, en þar má ætla að fryst loðnuhrogn séu afar fyrirferðamikil. Aukningin á milli ára þar er 336% á föstu gengi og munar langmest um hana í ofangreindri aukningu á útflutningsverðmætum sjávarafurða alls á milli ára nú í apríl. Af þessu sögðu er nokkuð víst að loðnan er að mæta sterk til leiks á ný í útflutningstölum þjóðarbúsins eftir dágott hlé. Loðnan er ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland og hefur skilað næstmestum útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum fisktegundum undanfarinn áratug, þrátt fyrir loðnubrest undanfarin tvö ár.  


Ferskar afurðir áfram í sókn
Af öðrum afurðaflokkum má nefna að veruleg aukning var á útflutningsverðmætum ferskra afurða í apríl, eða sem nemur um 64% á föstu gengi. Inn í þá aukningu spilar eðlilega COVID-19 stóra rullu, enda voru áhrifin sérlega mikil á útflutning á ferskum afurðum við upphaf faraldursins. Aukninguna má þó einnig rekja til aukinnar áherslu fyrirtækja á ferskfiskvinnslu, en verðmæti útfluttra ferskra afurða hefur aldrei verið meira í apríl en nú. Eins var dágóð aukning á útflutningsverðmætum frystra flaka (29% aukning) á milli ára sem og á söltuðum og þurrkuðum afurðum (25% á föstu gengi).

Ágætis byrjun
Sé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 93 milljarða króna. Hefur það aðeins einu sinni áður verið meira á fyrsta þriðjungi ársins á undanförnum áratug. Í krónum talið er aukning tæplega 15% frá sama tímabili í fyrra, en á föstu gengi er aukningin 10%. Verðmæti „annarra sjávarafurða“ hefur aukist hlutfallslega mest á milli ára, eða sem nemur um 78% á föstu gengi. Eins og að ofan greinir má vafalaust rekja aukninguna til frystra loðnuhrogna. Næstmest hefur aukningin verið á útflutningsverðmætum ferskra afurða, eða sem nemur um 33% á föstu gengi. Að lokum má nefna að um 28% aukning hefur verið á útflutningsverðmætum á frystum heilum fiski, þar hefur loðnan einnig stóru hlutverki að gegna. Útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka dróst saman á milli ára, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Sjávarafurðir voru alls um 42% af verðmæti vöruútflutnings á fyrstu fjórum mánuðum ársins, sem er aðeins meira en það hefur verið að jafnaði undanfarinn áratug. 

 

Deila frétt á facebook