Sjávarafurðir: Árið endar með stæl

6. janúar, 2023

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam ríflega 33 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í gærmorgun. Það er 37% aukning í krónum talið frá desember 2021. Aukningin er aðeins minni í erlendri mynt, eða tæp 34%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði ríflega 3% lægra í desember en í sama mánuði á árinu 2021. Það er því óhætt að segja að árið 2022 hafi endað með stæl enda hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða í desembermánuði ekki verið meiri eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná (frá 2002).

Fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar eru ekki birtar niður á tegundir eða lönd. Því er einungis hægt að sjá grófa sundurliðun niður á vinnsluflokka. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan er útflutningsverðmæti allra flokka að aukast á milli ára í desember, að frystum heilum fiski undanskildum. Aukningin er sér í lagi mikil í flokknum „aðrar sjávarafurðir“, en þar er ríflega tvöföldun á milli ára á föstu gengi. Sömu sögu má segja um útflutningsverðmæti lýsis, sem einnig tvöfaldast í verðmætum á milli ára, en það er tekið saman með fiskimjöli á myndinni.  
 

Útflutningsverðmæti 350 milljarðar

Miðað við ofangreindar tölur nam útflutningsverðmæti sjávarafurða rúmlega 349 milljörðum króna á nýliðnu ári. Það er um 18% aukning í krónum talið á milli ára. Þar sem viðskiptavegið gengi krónunnar var að jafnaði um 3% hærra á árinu 2022 en árið 2021, var aukningin aðeins meiri í erlendri mynt, eða tæp 22%. Á þann kvarða hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða aldrei verið meiri á einu ári, jafnvel þótt leiðrétt væri fyrir verðbólgu erlendis og verðmætin þá að raunvirði.

Það eru ótal þættir sem koma við sögu sem hafa áhrif á útflutningsverðmæti sjávarafurða frá einu ári til annars. Í fyrra bar einna hæst til tíðinda stór loðnukvóti sem skilaði sér í einni verðmætustu loðnuvertíð sögunnar. Eins hafði sú mikla hækkun sem var á verði sjávarafurða erlendis veruleg áhrif, enda vó hún upp og gott betur þann samdrátt sem varð á aflamagni mikilvægra botnfisktegunda, sér í lagi þorsks. Sú mikla hækkun á afurðaverði kom þó vissulega ekki af hinu góða, enda skýrist hún að hluta til af innrás Rússa í Úkraínu. Fyrir innrásina hafði fiskverð farið hækkandi í takti við batnandi aðstæður á mörkuðum og áhrifin af kórónuveirufaraldrinum minnkuðu. Sú mikla óvissa sem áhrif stríðsins leiddi til, og þær viðskiptaþvinganir sem Vesturlöndin gripu gegn Rússlandi, stuðlaði að frekari verðhækkunum. Hvað sem því líður er óhætt að segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi tekist vel til á nýliðnu ári við að hámarka verðmætin úr takmörkuðum afla. Það er ekki sjálfgefið. Vissulega er útflutningsverðmæti ekki algildur mælikvarði á stöðu sjávarútvegs. Til að mynda hefur sá mikli samdráttur sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski gert fyrirtækjum erfiðara um vik að útvega nægt hráefni til þess að halda vinnslum gangandi og tryggja heilsársstörf. Hækkun á verði var heldur ekki bundin við verð á sjávarafurðum, enda var allt að hækka, þar með talið flestir kostnaðarliðir sjávarútvegsfyrirtækja við framleiðslu og útflutning.

Vægi mjöls og lýsis ekki meira í 44 ár

Sé litið á einstaka vinnsluflokka munar mest um stóraukinn útflutning á fiskimjöli og lýsi, líkt og blasir við á myndinni hér á undan. Útflutningsverðmæti fiskimjöls nam rúmlega 37 milljörðum króna á árinu 2022, sem er 132% aukning á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti lýsis var liðlega 30 milljarðar króna, sem er 145% aukning á milli ára. Vó fiskimjöl og lýsi þar með hátt í fimmtung af útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu, en svo fyrirferðarmikið hefur það ekki verið frá árinu 1978.

Talsvert munar jafnframt um þá aukningu sem var á útflutningsverðmæti frystra flaka á árinu. Nam útflutningsverðmæti þeirra um 86 milljörðum króna á árinu, sem er 21% aukning á milli ára á föstu gengi. Eins var ágætis aukning á útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða (16%), rækju (31%) og á flokknum „aðrar sjávarafurðir“ (20%), en undir þann flokk falla meðal annars loðnuhrogn. Minni aukning var á útflutningsverðmæti ferskra afurða (5%). Af þeim vinnsluflokkum sem birtir eru í bráðabirgðatölunum er í raun eingöngu samdráttur í frystum heilum fiski (-23%) á milli ára.

Hlutdeild sjávarafurða í vöruútflutningi aldrei minni

Þrátt fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða hafi aldrei verið meira á einu ári en árið 2022, þá hafa sjávarafurðir aldrei vegið minna í verðmæti vöruútflutnings. Augljós skýring er að útflutningsverðmæti annarra afurða jukust talsvert umfram sjávarafurðir á tímabilinu. Ber hér hæst að nefna afurðir stóriðju, en eins er veruleg aukning á öðrum iðnaðarvörum og afurðum fiskeldis. Þar liggja jafnframt fremur miklar verðhækkanir en magnaukning að baki. Verðmæti vöruútflutnings fór í fyrsta sinn yfir 1.000 milljarða króna á árinu og jókst um 36% frá fyrra ári á föstu gengi. Var hlutdeild sjávarafurða þar með um 35% af verðmæti vöruútflutnings á árinu samanborið við 39% árið áður.

 

Deila frétt á facebook