Samdráttur og meiri framundan
27. maí, 2020
Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru um 266 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er tæplega 14% samdráttur í krónum talið frá sama tímabili í fyrra, eða sem nemur um 43 milljörðum króna. Í erlendri mynt er samdrátturinn nokkuð meiri, eða rúm 17%, enda var gengi krónunnar að jafnaði um 4% lægra nú á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra. Þó ber að halda til haga að verðmæti útfluttra skipa og flugvéla voru talsverð á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, en nettó áhrifin af þeim útflutningi eru engin á þjóðarhag þar sem fjárfesting í þjóðhagsreikninum er dregin niður um sömu fjárhæð. Sé slíkur útflutningur undanskilinn í tölunum, var samdráttur í útflutningstekjum þjóðarbúsins ekki alveg eins mikill, eða um 7% í krónum talið en um tæp 11% í erlendri mynt. Viðbúið er að samdrátturinn á fyrsta ársfjórðungi sé einungis brot af því sem koma skal á öðrum fjórðungum vegna COVID-19, enda fór áhrifa af veirunni ekki að gæta að neinu ráði fyrr en eftir miðjan mars.
Afurðaverð og gengi vegur upp samdrátt í magni
Á myndinni hér á undan má sjá niðurbrot á þremur stærstu útflutningsgreinum landsins í útflutningstekjum þjóðarbúsins, auk fiskeldis og annars útflutnings, á fyrsta fjórðungi hvers árs. Þar má sjá að tekjur af erlendum ferðamönnum lækka mest á milli ára, eða um 31% á föstu gengi. Samdráttinn má rekja til rúmlega 27% færri ferðamanna á tímabilinu og hann var langmestur í mars vegna COVID-19, eða rúm 53%. Útflutningstekjur af álafurðum drógust saman um rúm 10% í erlendri mynt. Það má bæði rekja til minni framleiðslu og verðlækkana. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var nánast á pari á fyrsta ársfjórðungi í krónum talið miðað við sama tíma í fyrra. Þar vóg hækkun á verði útfluttra afurða og lækkun á gengi krónunnar upp rúmlega 10% samdrátt í útfluttu magni. Samspil áhrifaþáttanna þriggja á útflutningsverðmæti sjávarafurða má sjá á myndinni hér fyrir neðan.
Fiskeldi hástökkvari fjórðungsins
Sé litið á útflutningstekjur annarra útflutningsgreina en þeirra þriggja stærstu, er þróunin öllu jákvæðari. Útflutningstekjur af eldisafurðum héldu áfram að aukast á milli ára, líkt og á undanförnum fjórðungum. Var verðmæti þeirra rúmlega 21% meira á fyrsta fjórðungi í ár samanborið við sama tíma í fyrra þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengisáhrifum. Eins var ágætis aukning á öðrum útflutningi, en hann var í heild um 77 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 69 milljarða í fyrra. Þar eru meðal annars hátæknigreinar sem tengjast matvælaframleiðslu, en umsvif þeirra hafa aukist verulega undanfarin ár. Þó er ekki hægt að festa fingur á hversu mikill slíkur útflutningur var, en hann kemur bæði fram í vöru- og þjónustuútflutningi.
COVID-19 hefur mikil áhrif
Eins og við höfum fjallað talsvert um að undanförnu á Radarnum, þá hefur sjávarútvegur og fiskeldi ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem upp hafa komið vegna COVID-19. Það kemur bersýnilega fram í tilraunatölfræði Hagstofunnar sem birt er vikulega, og nú liggja fyrir upplýsingar um fyrstu 20 vikur ársins. Á því tímabili er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 92 milljarða króna samanborið við 99 milljarða á sama tímabili í fyrra. Er þetta samdráttur upp á tæp 7% í krónum talið en rúm 13% í erlendri mynt. Þar af er samdrátturinn frá viku 13 til viku 20 rúm 23% í erlendri mynt, en það er tímabilið sem áhrifa COVID-19 gætir á útflutning.
Sömu sögu er að segja með fiskeldið og þar bendir allt til þess að COVID-19 hafi þurrkað út þá myndarlegu aukningu sem komin var í upphafi árs. Á fyrstu 20 vikum ársins er útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða, sem fiskeldi flokkast undir og er þar langstærsti hlutinn, komið í 12,6 milljarða króna samanborið við 12,0 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það jafngildir 5% aukningu í krónum talið en þá aukningu má alfarið rekja til veikingar á gengi krónunnar, enda er samdráttur upp á rúmt 1% í erlendri mynt á tímabilinu. Sé tekið mið af viku 13 til 20, hafa útflutningstekjur af landbúnaðarafurðum verið 29% minni í ár en á sama tímabili í fyrra.