Rússibanareið framundan

11. mars, 2023

Það er óhætt að segja að miklar vendingar hafi orðið í loðnuráðgjöf Hafrannsóknunastofnunar í febrúarmánuði. Í október í fyrra hafði stofnunin lagt til að hámarskafli loðnu yrði rúm 218 þúsund tonn á yfirstandandi vertíð. Þar af var hlutur íslensku uppsjávarfyrirtækjanna um 132 þúsund tonn. Að vanda var ráðgjöfin með þeim fyrirvara að hún yrði endurmetin í kjölfar mælinga á stærð veiðistofnsins í ársbyrjun 2023.

Í byrjun febrúar jók stofnunin svo við loðnuráðgjöf sína um rúm 57 þúsund tonn í kjölfar mælinga. Að meðtöldum þessum viðbótarkvóta var loðnukvótinn kominn í um 276 þúsund tonn og afli íslenskra skipa þar með um 173 þúsund tonn. Hinn 24. febrúar var ráðgjöfin síðan aukin enn á ný um rúm 184 þúsund tonn og var kvótinn þar með kominn í tæp 460 þúsund tonn. Allt saman talið var hlutur íslenskra uppsjávarskipa þá kominn í 312 þúsund tonn.

Því fyrr – því betra

Ofangreind aukning þann 24. febrúar leiddi til þess að öll íslensku uppsjávarfyrirtækin urðu að endurskipuleggja starfsemi sína á einu augabragði, enda afar knappur tími til stefnu þar sem verðmætasti hluti loðnuverðtíðarinnar var handan við hornið. Hafa verður í huga að einstakar afurðir loðnu er mjög ólíkar í verðmætum og veltur það að miklu leyti á þeim tíma sem loðnan er veidd á vertíðinni. Fyrir hverja loðnuvertíð þurfa fyrirtækin því að sýna mikla útsjónarsemi og skipuleggja loðnuveiðar vel til þess að ná sem mestum verðmætum úr þeim kvóta sem er úthlutað hverju sinni. Því fyrr sem viðbótarkvótinn liggur fyrir, þeim mun betur er unnt að haga skipulagi veiða og ná þannig meiri verðmætum úr vertíðinni. Það gefur auga leið að skipulag vertíðarinnar hefði verið með allt öðrum hætti hefði stærð loðnukvótans legið fyrir fyrr á vertíðinni. Stærð kvótans segir nefnilega ekki einungis til um það magn sem fyrirtækin hafa heimild til þess að veiða, heldur einnig um skipulag veiða og þar með hvernig aflanum verður líklega ráðstafað.

Því stærri sem loðnukvótinn er - því fyrr byrja veiðarnar almennt og af meiri krafti. Þá fer mikið í bræðslu í upphafi veiðitímabilsins, því þá er loðnan hvað feitust, sem er hagstætt fyrir lýsisframleiðslu. Hlutdeild loðnumjöls og lýsis er því hærra eftir því sem kvótinn er stærri. Fyrirtækin gæta þess þó ávallt að eiga nægilega mikið eftir þegar kemur að verðmætasta hluta verðtíðarinnar, en þó ekki þannig að hætt er við að þau nái ekki að veiða og vinna allan kvótann. Eftir því sem kvótinn er minni, því hlutfallslega meira af honum fer í veiðar undir lok vertíðar, á þeim tíma sem loðnan er hrognafull. Hlutdeild loðnuhrogna, sem er verðmætasta afurð loðnu, er því hærri þegar loðnukvótinn er minni.

Á síðustu vertíð var ljóst strax í byrjun október að loðnukvótinn yrði stór, en hann var ríflega tvöfaldur að stærð miðað við kvótann á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá hófu íslensku uppsjávarskipin líka veiðar óvenju snemma, eða í desember, og luku veiðum seint í mars. Á vertíðinni 2020/2021 var loðnukvótinn lítill og fengu íslensku skipin þá úthlutað um 71 þúsund tonni. Allur kvótinn var þess vegna nýttur á mánaðartímabili frá miðjum febrúar, sem er verðmætasti hluti verðtíðarinnar þegar loðnan er hrognafull. Veiðar á yfirstandandi vertíð hófust upp úr miðjum febrúar að einhverju ráði en hefðu eðlilega byrjað fyrr og af meiri krafti hefði endanlegur kvóti legið fyrir fyrr. Það hefur þó verið ágætis gangur í veiðum undanfarnar vikur og samkvæmt tölum frá Fiskistofu hafa íslensku uppsjávarskipin náð að landa um 171 þúsund tonni það sem af er loðnuvertíðinni. Það er um 55% af loðnukvótanum.

Í kappi við tímann

Það er ekki ofsögum sagt að loðnan sé sér á báti miðað við aðrar fisktegundir og nær ómögulegt er að nota eina vertíð til þess að spá fyrir um þá næstu. Loðnan er skammlífur fiskur þar sem hrygningardauði er mikill og segja má að veiðistofninn endurnýist árlega. Ef ekki næst að veiða allan kvótann, falla veiðiheimildir niður, ólíkt því sem tíðkast fyrir aðrar fisktegundir þar sem leyfilegt er að færa óveiddar veiðiheimildir upp að ákveðnu marki á milli fiskveiðiára. Enn sem komið er óráðið hvort íslenskum uppsjávarskipum takist að veiða allan þann kvóta sem þeim var úthlutað á yfirstandandi vertíð. Óvissuþættirnir eru margir; veiðigeta flotans, veiðanleiki loðnunnar, gæftir og vinnslugeta verksmiðja. Það þarf í raun allt að ganga upp ef takast á að veiða allan kvótann.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti loðnuafurða og loðnuafla undanfarin 10 ár. Þess má geta að enn er að mjatlast í útflutningstölur Hagstofunnar frá síðustu loðnuvertíð, eins sást í tölum janúarmánaðar þar sem loðnuhrogn voru nokkuð fyrirferðarmikil. Eitthvað var um óseldar birgðir af hinum svokölluðu iðnaðarhrognum undir lok síðasta árs, en Austur-Evrópa er stærsta markaðssvæði þeirra. Aukinheldur gæti útflutningur á loðnuhrognum sem eru þegar seld, en eru í geymslu hér á landi, enn verið að skila sér í bækur Hagstofunnar við útflutning. Ætla má að loðnuvertíðin í fyrra muni á endanum skila í kringum 55 milljörðum króna í útflutningstekjur. Hversu mikil verðmætin verða af loðnuvertíðinni nú er augljóslega ómögulegt að meta með vissu. Hver sem þau verða er þó hægt að fullyrða að þau hefðu orðið meiri ef viðbótakvótinn hefði legið fyrr fyrir. Brellin loðnan krefst viðvarandi vinnu við að betrumbæta vísindin, ráðgjöf og leit.

 

Deila frétt á facebook