Rangalar veiðigjaldsins

29. mars, 2023

Tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi voru um 629 milljónir króna í janúar ár samanborið við 371 milljón í sama mánuði í fyrra. Það er um 70% aukning á milli ára. Þetta má sjá í nýlegum tölum á vef Fiskistofu. 

Það helsta:


•    Mestu munar um veiðigjald af kolmunna. Það má rekja til þess að 72 þúsund tonnum af kolmunna var landað í janúar í ár en engu í fyrra. Það gerir um 179 milljónir króna í veiðigjald.
•    Næstmest munar um ýsuna, sem má hvort tveggja rekja til þess að meiri afla var landað í janúar í ár en í fyrra og krónutala veiðigjalda er hærri í ár en í fyrra. Skiluðu veiðar á ýsu rúmum 105 milljónum króna í ríkissjóð í janúar samanborið við 52 milljónum í janúar í fyrra. 
•    Eins munar nokkuð um veiðigjald af loðnu, þó loðnuaflinn hafi verið margfalt minni í janúar í ár en í sama mánuði í fyrra. Það má því alfarið rekja til þess að ekkert veiðigjald var af loðnu í fyrra, enda var loðnubrestur á því ári sem reiknistofn veiðigjaldsins var byggt á. Í ár er þarf að greiða 5,54 krónur fyrir hvert kíló af loðnu, sem er hæsta fjárhæð frá upphafi á loðnu. Skiluðu veiðar af loðnu ríflega 20 milljónum krónum í ríkissjóð í janúar.
•    Veiðar á þorski skiluðu þó mestu í ríkissjóð í janúar, eða 370 milljónum króna. Það er þó örlítill samdráttur miðað við janúar í fyrra. Samdrátturinn er einkum vegna minni afla enda er fjárhæð veiðigjalds á hvert kíló á þorski hærra í ár en í fyrra og í raun sú næsthæsta frá upphafi. 

 

Nánar um veiðigjald í janúar má sjá í töflunni hér neðst sem sýnir afla, veiðigjald og svo tekjur ríkissjóðs af hverri tegund. 

 

Engin geimvísindi

 

Mörgum kann að finnast flókið að átta sig á þessari gjaldtöku. Það er í sjálfu sér eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að sjálfur þingheimurinn virðist stundum vera jafn týndur í umræðunni. Umræðan um veiðigjald er því oft á misskilningi byggð og snýst iðulega bara um eina tölu, það er heildarfjárhæð veiðigjaldsins. Sú tala segir þó aðeins til um hversu miklar tekjur ríkissjóður fær af veiðigjaldi frá einu ári til annars, en ekkert um aflabrögð, rekstrarskilyrði eða markaðsaðstæður. Eðli máls samkvæmt hafa þessir þættir hins vegar úrslitaáhrif á heildarfjárhæð gjaldsins. 

 

Forsendur þeirrar skattheimtu sem felst í veiðigjaldinu eru ekki flóknar. Forsendurnar byggjast hins vegar á afkomu í fiskveiðum, sem getur verið afar sveiflukennd á milli ára, enda fjölmörgum óvissuþáttum háð, allt frá duttlungum náttúrunnar til pólitískrar áhættu í fjarlægum löndum. Í kringum 20 fisktegundir bera veiðigjald ár hvert og er gjaldið reiknað sérstaklega fyrir hverja þeirra. Þar getur þróunin á milli ára verið æði misjöfn, meðal annars vegna markaðsaðstæðna sem geta verið afar mismunandi á milli tegunda. Í stuttu máli má segja að veiðigjald nemi um 33% af afkomu fiskveiða, sem reiknað er til krónu á kílógramm landaðs óslægðs afla. 

 

Til stendur að bæta veiðigjaldi inn á mælaborð Radarins á næstu vikum, þar sem gjaldið er útskýrt nánar og þróun þess útlistuð myndrænt. En þangað til er áhugasömum bent á umfjöllun um framkvæmd veiðigjaldsútreikninga í grein sem birt var í fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund, og nálgast má hér.


 

Deila frétt á facebook