Lítilsháttar hækkun á verði sjávarafurða

30. júní, 2021

Framleiðsluverð á sjávarafurðum hækkaði um 0,3% í erlendri mynt í maí frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í gær. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem verð á sjávarafurðum hækkar á milli mánaða og er árstaktur vísitölunnar loksins kominn upp fyrir núllið. Tólf mánaða taktur vísitölunnar fór úr 2,3% lækkun í 0,3% hækkun á milli apríl og maí og er þar með í fyrsta sinn jákvæður frá því í mars í fyrra þegar COVID-19 faraldurinn skall á af fullum þunga. Augljóslega er ekki um mikla hækkun að ræða, en þetta er verulegur viðsnúningur frá því í byrjun árs, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Í janúar var tólf mánaða taktur verðvísitölu sjávarafurða kominn niður í tæplega 10% lækkun, sem er mesta lækkun sem orðið hefur frá því í október árið 2009.

 

Þokast í betra horf
Þróunin á afurðaverði er talsvert mismunandi eftir einstaka afurðaflokkum og tegundum, enda eru sjávarafurðir afar fjölbreyttar og fluttar út til mismunandi landa og á ólíka markaði. Ofangreinda hækkun á verðvísitölu sjávarafurða á milli mánaða í maí má rekja til 1,9% hækkunar á verði uppsjávarafurða í erlendri mynt, en verð á botnfiskafurðum stóð svo til í stað á sama tíma. Í raun mælist árstakturinn á botnfiskafurðum enn neikvæður, eða um 1,5% í maí, en hann hefur þó færst í mun betra horf á síðustu mánuðum. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróunina eftir afurðaflokkum botnfiska og þar sést að það er aðeins verð á ferskum afurðum sem mældist hærra nú í maí en í sama mánuði í fyrra. Verð á öðrum afurðaflokkum var lægra, en mjakast í flestum tilvikum í betra horf. Þróunin á næstu misserum mun að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst að ná faraldrinum niður víða um lönd, en það er þó ekki aðeins hægt að treysta á stöðuna í heimsbúskapnum eina og sér.

Veiða, vinna, selja
Margir standa í þeirri trú að eftir að fiskurinn er veiddur þá sé restin sjálfgefin. Veruleikinn er hins vegar allt annar. Fiskur í sjó felur ekki í sér verðmæti í sjálfu sér, heldur þarf að gera úr honum verðmæti sem má selja á mörkuðum erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir og kröfurnar eru miklar. Þar gegnir fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja í nýsköpun og tækni einu af lykilhlutverkum. Töluvert hefur verið fjallað um þá miklu fjárfestingu í veiðum og vinnslu, sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Það er að segja í auðlindanýtingunni og þeirri framleiðslu sem á sér stað hér á landi, enda hefur hún aldrei verið meiri en á undanförnum áratug. Í þessari umræðu gleymist þó oft að stór hluti af virðisaukanum á sér stað utan íslenskra lögsögu, eins og í sölu og markaðssetningu og í dreifileiðum. Fjárfesting þar er ekki síður mikilvæg, eins og kom fram á ráðstefnu sem haldin var í síðustu viku um framtíð íslensks sjávarútvegs og fiskeldis. Vitaskuld er erfitt að festa fingur á hversu mikið öll þessi vinna skilar sér, enda er hún falin í verði sjávarafurða þar sem ástand á mörkuðum hefur mikið um að segja.

Deila frétt á facebook