2/3 Hvar endar allur þessi fiskur?

21. desember, 2021

Að þessu sinni verða tvær heimsálfur teknar fyrir, Ameríka og Afríka. Þær eru afar ólíkar, með sína siði og menningu, auk þess sem innan þeirra eru vitaskuld mörg og afar ólík svæði. Hvað íslenskar sjávarafurðir varðar, þá eiga þessar álfur hins vegar tvennt sameiginlegt. Fyrst má nefna að útflutningur fer nánast alfarið til aðeins tveggja landa í álfunum. Eins eiga þær það sammerkt að flytja inn mikið af þorsk, ýsu- og ufsa, en þar er hins vegar um gjörólíka afurðaflokka að ræða.

Stöðug sókn til Bandaríkjanna og Kanada
Á undanförnum árum hefur um 97% af verðmætum íslenskra sjávarafurða sem flutt eru til Ameríku farið til aðeins tveggja landa, Bandaríkjanna og Kanada. Veruleg aukning hefur verið á útflutningi til þessara landa undanfarinn áratug. Áratuginn á undan var þróunin í þveröfuga átt og fór hlutdeild Ameríku lægst í rúm 4% á árinu 2011. Frá þeim tíma hefur verið nær stöðugur tröppugangur upp á við, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Þar má jafnframt sjá að vægi Ameríku í verðmæti útfluttra sjávarafurða alls er komið í tæp 13% á fyrstu 10 mánuðum þessa árs, en það hefur ekki verið hærra frá árinu 2002. Bandaríkin eru nú 3. stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir miðað við verðmæti, þriðja árið í röð. Árið 2011 voru þau í 12. sæti. Útflutningur til Kanada hefur aldrei verið meiri en í ár á þessari öld. Kanada er 11. stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir í ár, en fyrir áratugi var það í 27. sæti.

Ferskur þorskur fer vestur
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samsetningu helstu fisktegunda í verðmæti útfluttra sjávarafurða til Ameríku. Þar má sjá að samsetning afurða er allt önnur en hjá Asíu, sem fjallað var um í fréttabréfi í gær. Í raun eru loðnuhrogn eina sameiginlega tegundin sem er fyrirferðarmikil í útflutningi til þessara tveggja álfa. Þorskurinn er lang fyrirferðarmestur í útflutningi til Ameríku, svo ýsan og þar ræður ferskleiki ríkjum í báðum tilvikum. Vafalaust má því rekja aukningu sem orðið hefur á útflutningi á sjávarafurðum til Ameríku undanfarinn áratug að miklu leyti til aukinna aflaheimilda í þorski og þá áherslu sem fyrirtæki leggja á ferskfiskvinnslu. Stóraukin áhugi ferðamanna frá Bandaríkjunum á Íslandi, hefur einnig leitt til þess að mikið rými hefur skapast í fraktflugi. Er útflutningsverðmæti sjávarafurða til Ameríku komið í rúma 30 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um 19% aukning frá sama tímabili í fyrra í krónum talið. Sé leiðrétt fyrir gengi krónunnar gagnvart dollar er aukningin talsvert meiri, eða 28%.

Afríka heldur velli
Á undanförnum árum hafa rúmlega 98% af verðmætum íslenskra sjávarafurða, sem flutt eru til Afríku, farið til Nígeríu og Egyptalands. Nígería er 12. stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir í ár, miðað við verðmæti. Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Nígeríu í ár og á undanförnum árum er þó vart svipur á sjón miðað við það sem þau voru á árunum 2009 til 2015. Á þeim árum var Nígería að jafnaði í 7. sæti yfir stærstu viðskiptalönd Íslendinga með sjávarafurðir. Samdráttinn má alfarið rekja til þeirra gjaldeyrishafta sem sett voru á þar í landi á árinu 2015 vegna lækkandi olíuverðs og efnahagskreppunnar sem reið yfir árin á eftir. Viðskipti við Nígeríu hafa enn ekki náð viðlíka hæðum og fyrir þann tíma. Verð sem fæst fyrir afurðir sem þangað eru fluttar er langtum lægra nú en á þeim tíma. Á hinn bóginn hefur útflutningur til Egyptalands aukist verulega frá árinu 2014, en fyrir þann tíma var hann afar lítill. Á fyrstu 10 mánuðum ársins er Egyptaland í 20. sæti yfir stærstu viðskiptalönd með íslenskar sjávarafurðir, en á árinu 2014 var það í 38. sæti. Hlutdeild Afríku í heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða alls á fyrstu 10 mánuðum ársins er 3,7% og helst óbreytt á milli ára.

Hertir hausar ráðandi
Til Afríku hafa verið fluttar út sjávarafurðir fyrir tæpa 9 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum þessa árs. Það er rúmlega 7% aukning á milli ára í krónum talið. Í dollurum talið, sem algengt er að miða við í viðskiptum við Afríkulönd, er aukningin talsvert meiri, eða tæp 16%. Sjá má að þorskur, ýsa og ufsi eru einnig fyrirferðarmiklar tegundir í útflutningi til Afríku, sem á nær eingöngu við um Nígeríu, líkt og til Ameríku. Þar er hins vegar um gjörólíka vinnsluflokka að ræða. Til Nígeríu eru aðallega fluttir hertir hausar þar sem þorskhausar eru langfyrirferðarmestir. Makríll hefur verið önnur fyrirferðarmesta tegundin í útflutningi til Afríku. Í byrjun þessa áratugar keypti Nígería langstærstan hluta þess makríls, sem fluttur var til Afríku, en á undanförnum árum hefur hann að langstærstum hluta farið til Egyptalands.

Nígería allsráðandi í þurrkuðum afurðum
Eins og áður segir, þá dróst útflutningsverðmæti sjávarafurða til Nígeríu verulega saman í kjölfar gjaldeyrishafta og efnahagssamdráttar þar í landi á árinu 2015. Áhrif þessa á íslensk fyrirtæki voru mikil, enda er Nígería nánast eini markaður Íslendinga fyrir þurrkaðar fiskafurðir. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutning á hertum þorskhausum á ári hverju frá árinu 2012 og á fyrstu 10 mánuðum yfirstandandi árs. Þar blasir við að Nígería er langstærsta viðskiptaland Íslendinga fyrir herta þorskhausa. Útflutt magn hefur lítið breyst í gegnum árin en á hinn bóginn hefur mikil breyting orðið á útflutningsverðmætum; hvort sem það er í krónum eða dollurum talið. Það má augljóslega rekja til afurðaverðs, sem er enn þann dag í dag mun lægra en það var fyrir kreppuna í Nígeríu. En af þessu má sjá hversu mikil áhrif efnahagsástand í einstaka ríkjum hefur áhrif á viðskipti þeirra við önnur lönd. Það gefur auga leið að betra er að hafa ekki öll eggin í sömu körfu, en stundum er ekki um annað að velja.

 

Deila frétt á facebook