Góður gangur í eldinu

8. júlí, 2021

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 3,2 milljörðum króna í júní samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum. Miðað við sama mánuð í fyrra er þetta um 67% aukning í krónum talið. Gengi krónunnar var rétt rúmlega 4% sterkara nú í júní en í júní í fyrra og er aukningin því nokkuð meiri í erlendri mynt, eða 73%. Vafalaust má einhvern hluta þessarar aukningar rekja til áhrifa af COVID-19 og sóttvarnaraðgerða á markaði. Engu að síður eru þetta jákvæð tíðindi og um stærsta júnímánuð frá upphafi hvað verðmæti útfluttra eldisafurða áhrærir. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 18,8 milljarða króna. Það er um 38% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, þá hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei áður verið meira á tímabilinu. Það er um 5,5% af heildarverðmæti vöruútflutnings á tímabilinu og hefur það hlutfall aldrei verið hærra á þessum hluta árs.

Aukin umsvif sjást í tölum af vinnumarkaði
Aukin umsvif í fiskeldi hér á landi skína einnig vel í gegn í tölum af vinnumarkaði. Í tilraunatölfræði sem Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur má sjá að veruleg fjölgun hefur orðið á einstaklingum sem fá laun frá fiskeldi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að þeir voru að jafnaði um 540 talsins á mánuði á fyrstu 4 mánuðum ársins og hefur fjölgað statt og stöðugt með hverju ári frá árinu 2008. Jafnframt má sjá að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi á mann hafa verið nokkuð hærri að jafnaði en í hagkerfinu alls frá árinu 2014. Hér ber þó að halda til haga að hér er ekki tekið tillit til vinnutíma.

Horfur eru á frekari aukningu í eldi, bæði á sjó og landi. Mikil endurnýjun og uppbygging hefur orðið á seiðastöðvum á undanförnum árum, sem skila þar með stöðugt fleiri seiðum til áframeldis. Miðað við fjölda út settra laxaseiða áætlar sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST að magn sláturslax úr sjókvíum verði um 43,5 þúsund tonn í ár, 50 þúsund á næsta ári og 55 þúsund árið 2023. Til samanburðar má nefna að árið 2020 var magn sláturslax rúm 32 þúsund tonn úr sjókví. Framleiðslan á landi hefur verið margfalt minni en í sjókví og var rétt rúm 2 þúsund tonn í fyrra. Horfur eru á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn eða svo, þá sér í lagi á suðvesturhorni landsins. Því er ljóst að fiskeldi er að verða mikilvæg efnahagsleg stoð hér landi, til viðbótar við þær sem fyrir eru.   

 

Deila frétt á facebook