Fjárfesting lykill að bættri stöðu
21. febrúar, 2020
Þróun íslensks sjávarútvegs og samkeppnisstaða sjávarútvegsfyrirtækja hvílir að verulegu leyti á fjárfestingu. Tækniframfarir hafa verið örar í greininni og kröfurnar á markaði aukast þegar kemur að hraða, gæðum og umhverfisþáttum. Á undanförnum árum hafa sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í miklar fjárfestingar, bæði í veiðum og vinnslu, og í raun hefur fjárfesting í sjávarútvegi ekki verið umfangsmeiri frá því lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Sú þróun er afar jákvæð, ekki síst þegar kemur að umhverfismálum. Fjárfesting í nýjum fiskiskipum er lykillinn að því að sjávarútvegur geti haldið áfram á þeirri jákvæðu vegferð sem hann hefur verið á í umhverfismálum og dregið enn frekar úr olíunotkun og minnkað sótspor sitt.
Ofangreind þróun kemur vel fram í nýjum tölum Hagstofunnar um meðalaldur fiskiskipaflotans, þó einkum togara. Um aldamótin var meðalaldur íslenskra togara um 20 ár en var kominn upp í 30 árið 2016. Frá árinu 2016 hefur staðan snarlega breyst og er meðalaldur togaraflotans kominn í 21 ár. Þessa þróun má rekja til mikilla fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum eins og áður segir, og má að mestu leyti rekja til nýsmíði. Meðalaldur annarra skipa hefur þó haldið áfram að hækka og er fiskiskipaflotinn í heild að jafnaði 31 árs samanborið við um 20 ára um síðustu aldamót. Hér ber þó að hafa í huga að aldur fiskiskipa segir ekki alla söguna, því víða hefur endurnýjun átt sér stað í tækjum og tólum um borð.
Nánari umfjöllun um ofangreindar tölur og umhverfismál sjávarútvegsins má sjá á Radarnum, þar sem tölur um meðalaldur fiskiskipa hafa verið uppfærðar.