Fiskur í risastórri tjörn
30. mars, 2023
Margir halda eflaust, miðað við fregnir af auknum umsvifum í laxeldi hér á landi, að Ísland sé orðið umsvifamikið í laxeldi á heimsvísu. Það er öðru nær og er nærtækt að nefna Færeyjar og Noreg til samanburðar. Þrátt fyrir að laxeldi á Íslandi hafi stóreflst undanfarin ár, þá er framleiðslan enn mun minni en í Færeyjum og dropi í hafið miðað við Noreg. Á árinu 2022, sem er eitt stærsta ár Íslandsögunnar í framleiðslu og útflutningi á eldislaxi, voru flutt út tæplega 39 þúsund tonn af eldislaxi. Sama ár fluttu frændur okkar í Færeyjum út um 75 þúsund tonn af eldislaxi, eða hátt í tvöfalt meira en Íslendingar.
Norðmenn eru svo sér á báti, enda heimsmeistarar í framleiðslu og útflutningi á eldislaxi. Útflutningur á eldislaxi frá Noregi nam 1.255 tonn á árinu, sem er örlítið minna en flutt var út á árinu 2021, sem var metár í útfluttu magni. Andvirði útflutnings Norðmanna á eldislaxi var um 1.490 milljarðar íslenskra króna árið 2022, sem hins vegar er met. Það kemur til af miklum afurðaverðshækkunum í fyrra. Þessar útflutningstekjur Norðmanna á eldislaxi einum og sér, jafngildir um 85% af samanlögðum tekjum Íslendinga af vöru- og þjónustuútflutningi í fyrra.
Ólíkt vægi
Hagkerfi Íslands, Noregs og Færeyja eru ólík að stærð og gerð. Þau eiga það hins vegar sammerkt að eiga nokkuð mikið undir fiskútflutningi, en vissulega mismikið. Það blasir við á myndinni hér að neðan sem sýnir hlutdeild sjávar- og eldisafurða í verðmæti vöruútflutnings hvers lands fyrir sig. Færeyingar eru þar efstir á blaði, en vöruútflutningur þjóðar getur varla verið einhæfari, sem að stærstum hluta má rekja til smæðar færeyska hagkerfisins. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá hefur útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða verið í kringum 92-94% af verðmæti alls vöruútflutnings þar í landi undanfarin fimm ár. Laxeldið hefur vissulega gert stöðuna betri og dregið úr áhættu, enda er eldið ekki eins háð duttlungum náttúrunnar og villtir fiskistofnar og því hægt að hafa betri stjórn á magni. Þar má sjá að útflutningsverðmæti eldislax hefur verið um 39-45% af verðmæti alls vöruútflutnings eyjanna á undanförnum árum.
Meiri fjölbreytni gætir í útflutningstölum frá Íslandi, en þar hefur útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða verið um 40-49% af verðmæti vöruútflutnings alls undanfarin fimm ár. Þar af hefur eldislax farið hæst í 4%, sem var í fyrra. Hlutdeild sjávar- og eldisafurða er svo lægst í Noregi enda er útflutningur á olíu og gasi afar umfangsmikill þar í landi. Vægi laxeldis í verðmæti vöruútflutnings er þó eflaust minna en margur hefði ætlað í Noregi út fá ofangreindum tölum um útflutningstekjur Norðmanna frá eldislaxi. Á síðasta ári var hlutdeild eldislax í Noregi aðeins 4% af útflutningsverðmætum, rétt eins og á Íslandi. Í Noregi vegur eldislax jafnframt margfalt meira en allur annar útflutningur á sjávar- og eldisafurðum. Undanfarin fimm ár hefur útflutningsverðmæti eldislax verið um 4-9% af verðmæti vöruútflutnings alls á sama tíma og verðmæti sjávar- og annarra eldisafurða hefur vegið um 2-4%.
Vitaskuld er ofangreind hlutdeild einnig háð því hvernig gengur á öðrum sviðum útflutnings, eins og til dæmis í olíuiðnaðinum í Noregi og áliðnaðinum á Ísland. Hvað sem því líður ætti flestum að vera ljóst hversu þarft það er að hafa traustar stoðir undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, og þeim mun fjölbreyttari, því betra. Fiskeldi er því afar kærkomin búbót við útflutningsflóru íslenska hagkerfisins. Á því liggur einmitt enginn vafi!