Fiskur fyrirferðamikill í útflutningi

6. október, 2020

Verðmæti vöruútflutnings nam alls tæplega 62 milljörðum króna í september samanborið við rúmlega 50 milljarða í sama mánuði í fyrra. Það er rúmlega 22% aukning í krónum talið á milli ára. Gengi krónunnar spilar vissulega stóra rullu í þessari aukningu, enda var það rúmlega 13% veikara nú í september en á sama tíma í fyrra. Engu að síður er ágætis aukning, eða tæp 6% í erlendri mynt. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

 

Þróunina í september má einkum rekja til tæplega 11% aukningar í verðmætum útfluttra sjávarafurða á milli ára, mælt í erlendri mynt, og ríflega tvöföldunar á útflutningsverðmætum landbúnaðarafurða. Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða hefur í raun aldrei mælst meira í einum mánuði í krónum talið, en í erlendri mynt er um næststærsta mánuð að ræða. Útflutningsverðmæti þeirra var 4,5 milljarðar króna í september samanborið við 1,9 milljarða í september í fyrra. Það jafngildir aukningu upp á rúm 105% í erlendri mynt.

Eldi: Stefnir í myndarlega aukningu
Þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur fyrir útflutning í september og einungis hægt að sjá útflutningsverðmæti yfirflokka, eins og landbúnaðarafurða í heild. Sem kunnugt er falla eldisafurðir þar undir og hefur vægi þeirra í ár verið rúm 85% af útflutningsverðmætum landbúnaðarafurða. Eru því miklar líkur á því að veruleg aukning hafi orðið á útflutningsverðmætum eldisafurða á milli ára í september. Þetta er í takti við væntingar líkt og fjallað var nýlega um á Radarnum. Þar var þess getið að sá samdráttur sem mældist í útflutningsverðmætum eldisafurða í júlí og ágúst væri aðeins tímabundinn og mætti einkum rekja til vinnslustöðvunar hjá hluta af eldisfyrirtækjunum nú í sumar.  

Fjárfesting forsenda viðspyrnu
Ofangreindar tölur benda til þess að útflutningur á fiskafurðum hafi verið yfir helmingur af verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í september. Það minnir óneytanlega á utanríkisverslun áður en umsvif stóriðju voru aukin fyrir hrun, en þá var eldið vissulega ekki nærri eins umsvifamikið og það er nú. Efnahagslegum stoðum hefur fjölgað með tilkomu eldisins og er það afar jákvætt fyrir þjóðarhag. Og ekki síður fyrir nærumhverfi starfseminnar eins og sjá má í nýlegri grein sem birt var á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

Líkt og fjallað var um í grein á Radarnum í síðustu viku, þá hefur gangurinn í sjávarútvegi almennt verið betri en á horfðist í fyrstu þegar COVID-19 faraldurinn skall á. Þann árangur má einkum rekja til þess innbyggða sveigjanleika sem er í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu og ekki síður hinum gríðarmiklu fjárfestingum sem fyrirtækin hafa ráðist í á undanförnum árum, bæði í skipum og vinnslum. Sú fjárfesting hefur gert fyrirtækjunum mun betur í stakk búin að mæta því ófyrirséða ástandi sem upp kom í ár og óhætt er að fullyrða að án þess hefði viðspyrnan verið mun veikari en raunin hefur verið.    

 

Deila frétt á facebook