Fiskeldi: Verulegur samdráttur í útflutningsverðmæti

2. júní, 2020

COVID-19 hefur sett verulegt strik í reikninginn fyrir allflestar atvinnugreinar um heim allan, þar með talið fiskeldi á Íslandi. Greinin hefur verið í örum vexti undanfarin ár, sem meðal annars má sjá í stórauknum útflutningstekjum greinarinnar. Svo er ekki í apríl og vafalítið er skýringuna að finna í farsóttinni. Nam útflutningsverðmæti eldisafurða 1.651 milljón króna í apríl sem er talsvert minna en undanfarna mánuði. Þetta er rúmlega 21% samdráttur frá apríl í fyrra í krónum talið, en sé tekið tillit til lækkunar á gengi krónunnar á tímabilinu er samdrátturinn ívið meiri, eða rúmlega 31%. Að magni til er samdrátturinn mun minni, eða rétt tæp 4%. Gefur því auga leið að lækkun á afurðaverði skýrir samdráttinn, sem rekja má til aðstæðna á mörkuðum vegna COVID-19 sem við höfum fjallað um á Radarnum.

Verðlækkanir á mörkuðum
Alls nam útflutningsverðmæti eldislax í apríl 1.382 milljónum króna. Það er 13% samdráttur í krónum talið frá sama mánuði í fyrra en rúmlega 24% samdráttur í erlendri mynt. Á sama tímabili jókst útflutningur á eldislaxi um rúm 19% í kílóum talið og er ljóst að samdráttinn má að öllu leyti rekja til verulegrar lækkunar á afurðaverði á milli ára. Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, nam 243 milljónum króna í apríl. Það er 32% samdráttur í krónum talið frá apríl í fyrra en um 41% í erlendri mynt. Samdráttinn má bæði rekja til 32% samdráttar í útfluttu magni og verðlækkana. Jafnframt var verulegur samdráttur í útflutningi annarra eldisafurða, en útflutningsverðmæti þeirra núna í apríl var rétt um 26 milljónir króna samanborið við 156 milljónir í apríl í fyrra.

Útflutningsverðmæti eldisafurða þó aldrei verið meira
Sé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins, er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæpa 9,9 milljarða króna samanborið við rúma 8,6 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rúmlega 14% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 8% í erlendri mynt. Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða í raun aldrei verið meira á fyrstu fjórum mánuðum ársins en í ár, hvort sem mælt er í krónum eða erlendri mynt. Vægi eldislax er 79% af útflutningsverðmæti eldisafurða á árinu samanborið við rúmlega 77% á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild silungs, sem er aðallega bleikja, af útflutningsverðmæti hefur einnig aukist á tímabilinu, eða úr tæpum 17% í rúm 19%. Hefur vægi annarra eldisafurða þar með minnkað talsvert, sem kemur einnig til af því að verulega hefur dregið úr útflutningi á þeim. Vógu þær tæp 2% af útflutningsverðmætum eldisafurða á fyrstu fjórum mánuðum ársins samanborið tæp 6% í fyrra.

Verður aukningin að engu með nýjum tölum?
Tilraunatölfræði Hagstofunnar, sem eru vikulegar upplýsingar um útflutning helstu vöruflokka, bendir sterklega til þess að talsverður samdráttur sé í kortunum í maí varðandi útflutningsverðmæti eldisafurða. Þar heyra eldisafurðir undir landbúnaðarafurðir og eru þar langstærsti hlutinn, eða um 85% miðað við útflutningsverðmæti fyrstu fjóra mánuði ársins. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá uppsafnað útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða frá áramótum talið í lok hverrar viku í ár samanborið við síðasta ár á föstu gengi. Þar má jafnframt sjá að línan sem sýnir breytinguna á hverjum tíma á milli ára sveiflast heldur betur niður á við; úr því að vera 19% aukning fyrir COVID-19 niður í rúmlega 2% samdrátt. Þetta bendir til þess að farsóttin hafi þurrkað upp þá myndarlegu aukningu sem komin var og í raun gott betur. Verður fróðlegt að sjá hvernig síðasta vika maí kemur út, sem er vika 22, en útkoman verður væntanlega birt á föstudag, samhliða bráðabirgðatölum um vöruskipti í maí.  

 

Deila frétt á facebook