Fiskeldi: Verðmæti aldrei meiri í upphafi árs

17. mars, 2023

Ágætis gangur hefur verið í framleiðslu og útflutningi á eldisafurðum það sem af er ári. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 9,7 milljarða króna og hafa þau aldrei verið meiri í upphafi árs. Miðað við sama tímabil í fyrra er um 13% aukningu að ræða í krónum talið. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt, eða tæp 7%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði ríflega 5% veikara á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Sem hlutfall af verðmæti vöruútflutnings voru eldisafurðir rúm 6% og hefur vægi þeirra aldrei verið meira á fyrstu tveimur mánuðum ársins en nú í ár, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Það þýðir eðlilega að meiri vöxtur var almennt í útflutningstekjum af eldisafurðum en öðrum liðum vöruútflutnings. Þessi aukning í útflutningstekjum af eldisafurðum er afar kærkomin enda veitir ekki af að afla meiri útflutningstekna miðað við þann halla sem er nú um stundir á utanríkisviðskiptum Íslendinga. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í febrúar sem birtar voru í síðustu viku. Þar er einungis að sjá tölur um útflutningsverðmæti eldisafurða í heild í febrúar, en ekki niður á einstaka eldistegundir eða útflutt magn. Þær tölur verða birtar í lok þessa mánaðar.


Silungur á siglingu í janúar

Ætla má að eldislax hafi látið talsvert til sín í taka í ofangreindum tölum, líkt og hann hefur gert undanfarin misseri. Þó var silungur, sem er að langstærstum hluta bleikja en einhver hluti er regnbogasilungur, áberandi í tölum janúarmánaðar. Alls var fluttur út silungur fyrir 780 milljónir króna í janúar, sem er um 156% aukning frá sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Er hér í raun um næststærsta mánuð frá upphafi hvað útflutningsverðmæti silungs áhrærir, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Áhugavert verður að fylgjast með hvort að önnur þróun verði á silungi í ár en í fyrra, en þá dróst útflutningsverðmæti hans saman um tæp 15% á milli ára á föstu gengi.

 

Deila frétt á facebook