Fiskeldi: Um 6% af verðmæti vöruútflutnings

4. mars, 2021

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.923 milljónum króna í febrúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum. Í krónum talið er það nánast jafn mikið og útflutningsverðmæti eldisafurða var í febrúar í fyrra. Vegna lækkunar á gengi krónunnar á tímabilinu mælist hins vegar samdráttur upp á tæp 9% í erlendri mynt. Líkt og með aðrar afurðir geta verulegar sveiflur verið á milli mánaða í útflutningi á eldisafurðum, en samdrátturinn nú febrúar kemur í kjölfarið á dágóðri aukningu í janúar. Þannig var verðmæti útfluttra eldisafurða um 10% meira í janúar en í sama mánuði í fyrra í erlendri mynt. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 6 milljarða króna, sem er á pari við verðmæti afurðanna á sama tímabil í fyrra á föstu gengi, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Það er rétt undir 6% af verðmæti vöruútflutnings á tímabilinu, sem er örlítið hærra en á sama tíma í fyrra og þar með það hæsta frá upphafi.

 

Deila frétt á facebook