Eldi: Sviptingar á milli mánaða
1. september, 2020
Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 1,5 milljarði króna í júlí samanborið við tæplega 1,6 milljarða króna í sama mánuði í fyrra. Er það samdráttur upp á rúmlega 5% í krónum talið á milli ára. Gengi krónunnar var að jafnaði rúmlega 10% lægra í júlí ár en í júlí í fyrra og er samdrátturinn því ívið meiri mældur í erlendri mynt, eða rúmlega 15%. Í tonnum talið er samdrátturinn jafnframt meiri, eða sem nemur um 23% á tímabilinu. Þetta er í takti við það sem búast mátti við og fjallað var um í frétt á Radarnum fyrr í þessum mánuði (sjá hér). Miklar sveiflur geta verið á milli mánaða, en mánuðinn á undan var um 50% aukningu að ræða í útflutningsverðmætum eldisafurða í erlendri mynt og því um stærsta júní frá upphafi hvað útflutning eldisafurða varðar. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær.
Verðmæt hátækniframleiðsla
Alls nam útflutningsverðmæti eldislax 1.148 milljónum króna í júlí samanborið við 1.053 milljónir í júlí fyrra. Það er aukning upp á 9% í krónum talið, en rúmlega 2% samdráttur mælist í erlendri mynt. Í tonnum talið er samdrátturinn ívið meiri, eða sem nemur rúmlega 13%. Ástæða þessa mismunar er að í tölum um útflutning eldislax er flokkur sem nefnist „lifandi eldislax, þar með talið seiði“. Ætla má að þar sé um að ræða frjóvguð hrogn, en útflutningur á þeim er afar verðmætur, enda um hátækniafurð að ræða. Verðmæti þess útflutnings var 457 milljónir króna í júlí, sem er um 140% aukning á milli ára, mælt í erlendi mynt. Var vægi hans um 40% af heildarútflutningsverðmæti eldislax í júlí en um 14% í tonnum talið. Að þessum útflutningi undanskildum, dróst útflutningsverðmæti eldislax í erlendri mynt saman um 30% á milli ára en um 25% að magni til. Meiri samdráttur í verðmætum en magni endurspeglar áhrif COVID-19 á starfsemi fiskeldisfyrirtækja, sem er meðal annars lækkun á afurðaverði erlendis. Af öðrum eldisfiski má nefna að útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, nam 324 milljónum króna í mánuðinum samanborið við 381 milljón í fyrra. Er það samdráttur upp á 15% í krónum talið en um 24% í erlendri mynt.
Afurðaverð lækkar en framleiðslan eykst
Á fyrstu 7 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 15,0 milljarða króna samanborið við 13,7 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rúmlega 9% aukning í krónum talið á milli ára og hefur útflutningsverðmæti eldisafurða á þann kvarða aldrei verið meira á fyrstu 7 mánuðunum. Á hinn bóginn mælist samdráttur upp á 1% í erlendri mynt enda hefur gengi krónunnar að jafnaði verið um 8% lægra á fyrstu 7 mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Samdráttinn má einkum rekja til lækkunar á afurðaverði erlendis þar sem framleiðslan, það er útflutt magn, hefur aukist á milli ára, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Eins og áður greinir er lækkun á afurðaverði afleiðing af COVID-19, en einnig hefur ástandið hægt á framleiðslu.