Dágóð aukning í nóvember
8. desember, 2023
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam rúmlega 33 milljörðum króna í nóvember. Það er rúmlega 17% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Aukningin er á svipuðu róli sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum krónu, eða sem nemur rúm 16%. Útflutningsverðmæti sjávarafurða er þar með komið í rúma 313 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Það er rúmlega 2% samdráttur frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í nóvember sem birtar voru í gærmorgun. Þær tölur eru ekki birtar niður á fisktegundir, heldur einungis niður á vinnsluflokka.
Mjöl og lýsi í hæstu hæðum
Ofangreinda aukningu í nóvember má að öllu leyti rekja til fiskimjöls og lýsis og óhætt er að segja að þar sé um all hressilega aukningu að ræða. Þannig nemur útflutningsverðmæti mjöls og lýsis samanlagt 12,6 milljörðum króna í nóvember, sem er rúmlega fjórfalt meiri verðmæti en flutt voru út í nóvember fyrir ári, á föstu gengi. Þar af var flutt út fiskimjöl fyrir um 5,6 milljarða króna (430% aukning á föstu gengi) og lýsi fyrir 7,0 milljarða króna (+250%). Hlutdeild mjöls og lýsis af útflutningsverðmæti sjávarafurða er þar með 38% í nóvember og hefur aldrei áður vegið svo hátt í einum mánuði eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná, sem eru frá 2002. Áður hafði þessi hlutdeild hæst farið í 29% sem var í febrúar fyrir ári þegar útflutningur á loðnumjöli og -lýsi var nálægt hæstu hæðum.
Sé mjöl og lýsi undanskilið í tölum um útflutningsverðmæti sjávarafurða í nóvember er staðan önnur enda er þá um fimmtungs samdrátt að ræða á milli ára. Eins og við blasir á myndinni hér fyrir neðan, þá er útflutningsverðmæti allra annarra afurðaflokka að dragast saman á milli ára, að ferskum afurðum og heilfrystum fiski undanskildum sem standa í stað. Samdrátturinn er hlutfallslega mestur í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ (-36% á föstu gengi) en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Jafnframt er verulegur samdráttur í útflutningsverðmæti frystra flaka (-31%), saltaðra og þurrkaðra afurða (-26%) og rækju (-28%).
Mjöl og lýsi ríflega fimmtungur verðmæta
Á fyrstu 11 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti fiskimjöls og lýsis komið í 66 milljarða króna, sem er um 6% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Þar af nemur útflutningsverðmæti fiskimjöls tæplega 36 milljörðum króna (2% aukning á föstu gengi) og lýsis rúmlega 30 milljörðum (11%). Vægi mjöls og lýsis er nú um 21% af útflutningsverðmæti sjávarafurða samanborið við tæp 20% á sama tímabili í fyrra. Þess má geta að í fyrra hafði mjöl og lýsi ekki verið fyrirferðarmeira í verðmæti útfluttra sjávarafurða frá árinu 1978.
Af öðrum vinnsluflokkum má nefna að útflutningsverðmæti ferskra afurða er komið í rúma 80 milljarða króna á árinu, sem er 2% aukning á föstu gengi frá sama tímabili í fyrra. Eins er dágóð aukning á heilfrystum fiski, eða rúm 17%, en þar eru verðmætin komin í tæpa 34 milljarða króna. Samdráttur er í útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka. Þar ber hæst 24% samdráttur í flokknum „aðrar sjávarafurðir“ en hann má fyrst og fremst rekja til þeirra verðlækkunar sem orðið hefur á loðnuhrognum á undanförnum mánuðum. Eins er talsverður samdráttur í útflutningsverðmæti frystra flaka (-11%) en minni samdráttur er í öðrum afurðaflokkum, það er rækju (-5%) og á söltuðum og þurrkuðum afurðum (-2%).
Sveigjanleiki skiptir sköpum
Þessi aukning í útflutningsverðmæti fiskimjöls og lýsis á árinu kann að koma einhverjum að óvörum í ljósi þess að útflutningur á loðnumjöli og -lýsi er til muna minni í ár en í fyrra. Þannig var mun stærri hluta loðnukvótans ráðstafað til manneldis í ár en í fyrra enda var kvótinn í ár talsvert minni. Þar hafði þó einnig áhrif hversu seint viðbótarkvótinn barst á síðustu vertíð, en eins og fjallað var um í grein á Radarnum hefði mun meira af kvótanum verið ráðstafað í bræðslu hefði kvótinn legið fyrr fyrir.
Þessi aukning á fiskimjöli og lýsi í ár skýrist af mörgum þáttum. Veruleg aukning var á kolmunnakvótanum á milli ára, en hann fer allur í bræðslu. Ástandið í Úkraínu hefur gert framleiðendum á frystum makríl- og síldarafurðum erfitt um vik að koma afurðum til viðskiptavina sem hefur orðið til þess að allar frystigeymslur eru orðnar fullar. Til þess að draga úr áhættu og tryggja útflutningstekjur hefur því stærri hluta af síldar- og makrílkvótanum verið ráðstafað í mjöl og lýsi. Þar kemur sér vel að eftirspurn eftir mjöli og lýsi hefur stöðugt aukist samfara auknu laxeldi á heimsvísu. Þar með hafa verð verið góð fyrir afurðir fiskimjölsverksmiðja. Í ár hefur jafnframt orðið sérlega mikil hækkun á lýsisverði, en þá hækkun má rekja til samdráttar í ansjósukvóta í Perú og minni lýsisframleiðslu.
Þrátt fyrir ofangreindan samdrátt í útflutningsverðmæti sjávarafurða er vægi sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 11 mánuðum ársins nokkuð hærra í ár en í fyrra, eða rúm 37% á móti 35%. Það er augljóslega af þeirri ástæðu að verðmæti annars vöruútflutnings er að dragast meira saman en sjávarafurða. Það er þó ekki öll sagan þar sem samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða væri eflaust öllu meiri ef ekki væri fyrir áherslu sjávarútvegsfyrirtækja á sveigjanleika í rekstri. Af ofangreindu má vera ljóst að hann skiptir sköpum. Ólíkir afurðaflokkar sömu fisktegunda endurspeglar ákveðinn sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum líkt og nú. Áhersla fyrirtækjanna á að sækja á fleiri og ólíka markaði er ekki síður mikilvægur eiginleiki í þeim efnum. Þegar illar árar í einu landi, vegna efnahagslegra eða pólitískra þrenginga, er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd eru víðar. Á sama hátt er þetta mikilvægt fyrir efnahag þjóðarinnar, enda styrkir þessi aðlögunarhæfni sjávarútvegs gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Það skiptir máli þar sem sjávarútvegur er ein meginstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi.